Erlent

Morð og kaupæði á Oxford-stræti

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Talið er að tæplega sex milljónir Breta hafi freistast til að gera góð kaup í dag, við upphaf jólaútsölunnar. Morðárás í verslun á Oxford-street í Lundúnum setti svartan blett á daginn þar ytra.

Þeir allra hörðustu hófu verslunarleiðangur sinn í gærkvöldi, um hálfum sólarhring fyrir opnun. Verslunardagurinn hófst svo eldsnemma í morgun og líktust kaupglaðir viðskiptavinir einna helst kúnum þegar þeim er hleypt út í fyrsta sinn á vorin.

Talið er að 5,6 milljónir hafi lagt leið sína í breskar verslanir á þessum degi sem kallaður er Boxing day þar ytra.

Jólaverslunin í Bretlandi hefur ekki gengið sem skyldi þetta árið og tóku margir verslunareigendur upp á því að lækka verð á vörum sínum nokkrum dögum fyrir hátíðarnar. Vegna þessa er talið að margir hafi nú þegar keypt flest allt sem þeir þurfa og sala dagsins í dag gæti því orðið minni miðað við síðustu ár.

Þá er búist við að sólarhrings verkfall starfsmanna neðanjarðarlesta í Lundúnum eigi eftir að draga enn frekar úr sölunni. Veðurguðirnir hafa þó verið breskum sölumönnum hliðhollir en óvenjuhlýtt er nú á Bretlandi miðað við árstíma.

Hörmulegur atburður sem átti sér stað um tvöleytið í versluninni Foot Lockers á Oxford-stræti skyggði á daginn en þar var átján ára gamall maður stunginn til bana. Margar verslanir á svæðinu ákváðu í ljósi atburðanna að loka fyrr en áætlað var en tíu hafa verið handteknir í tengslum við morðið, sem er í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×