Erlent

Jólatréð reyndist vera kannabisplanta

Lögreglan í Kent að störfum.
Lögreglan í Kent að störfum.
Bretinn Ian Richards frá Kent í Bretlandi hélt sérkennilega upp á jólin í ár. Í raun voru þau ólögleg, en hann hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir jólahaldið.

Lögreglan í Kent uppgötvaði sér til undrunar að Bretinn Ian Richards hélt ekki upp á jólin eins og flestir. Jólatréð reyndist nefnilega ekki vera höggvið úr neinum venjulegum skógi. Heldur hafði Ian skreytt kannabisplöntu eins og jólatré.

Tréð var vel skreytt, með fagurrauðar jólakúlur hangandi á laufunum auk jólaljósa sem lýstu upp stofuna. Lyktin var hinsvegar heldur torkennileg og líklega má segja að tréð hafi verið annarskonar gleðigjafi en heiðvirðar fjölskyldur eru vanar.

Auk þess sem Ian hafði skreytt kannabistréð fann lögreglan hátæknilega kannabisverksmiðju í íbúðinni hans. Sjálfur hélt Ian því fram að efnið væri til einkaneyslu. Dómari tók þá afsökun ekki gilda, enda þótti sannað að verksmiðjan gæti framleitt mikið magn af marijúana.

Það var því niðurstaða dómarans að dæma Ian í átján mánaða fangelsi. Hann þarf því að sætta sig við hefðbundið grenitré eins og við hin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×