Handbolti

Aron með fimm mörk þegar Kiel sló Füchse Berlin úr úr bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson
Aron Pálmarsson Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Alfreð Gíslason hafði betur á móti Degi Sigurðssyni í 16 liða úrslitum þýska bikarsins í Berlín í kvöld. THW Kiel vann Füchse Berlin 39-28 og tryggði sér sæti í átta liða úrslitunum. Kiel er ríkjandi bikarmeistari og hefur unnið þýska bikarinn fjórum sinnum á síðustu fimm árum.

Aron Pálmarsson átti fínan leik og skoraði fimm mörk fyrir Kiel en þeir Momir Ilic og Kim Andersson voru markahæstir með sjö mörk hvor. Alexander Petersson skoraði fjögur mörk fyrir Füchse en þeir Bartlomiej Jaszka og Ivan Nincevic voru markahæstir með fimm mörk hvor.

Kiel var á undan að skora frá byrjun en það var samt jafnt á öllum tölum þar til að Kiel komst í 7-5. Füchse Berlin jafnaði metin aftur í 7-7 en þrjú mörk í röð komu Kiel í 12-9 þegar 19 mínútur voru liðnar af leiknum. Kim Andersson fór á kostum í upphafi leiks og skoraði 6 af fyrstu 10 mörkum Kiel.

Füchse minnkaði muninn aftur í eitt markm 15-14, en staðan var 17-14 fyrir Kiel í hálfleik eftir að Kiel-liðið skoraði tvö síðustu mörk hálfleiksins. Aron skoraði annað þeirra marka og var með 2 mörk í fyrri hálfleiknum  en Alexander skoraði eitt mark í fyrri hálfleik.

Füchse skoraði fyrsta mark seinni hálfleiks og minnkaði muninn í tvö mörk en Kiel svaraði með þremur mörkum í röð og leit aldrei til baka eftir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×