Handbolti

HM kvenna 2011: Spánn sló út Brasilíu eftir mikla dramatík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Spánn varð fjórða og síðasta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum á HM kvenna í handbolta í Brasilíu eftir dramatískan sigur á heimastúlkum í Brasilíu. Spánn mætir Noregi í undanúrslitunum á föstudaginn en í hinum leiknum spila Danmörk og Frakkland.

Spánn vann leikinn 27-26 en sigurmarkið kom úr hraðaupphlaupi eftir að þær spænsku stálu boltanum af brasilíska liðinu. Lokasókn Brasilíu rann síðan út í sandinn og spænsku stelpurnar fögnuðu sigri.

Spánn var með frumkvæðið nær allan leikinn og leiddi 19-17 í hálfleik. Þær brasilísku áttu frábæran sprett í seinni hálfleik og tókst að vinna sig inn í leikinn en gerðu síðan dýrkeypt mistök á lokakaflanum þegar þær áttu möguleika á því að tryggja sér sigurinn.

Spánn er eins og kunnugt er í riðli með íslenska landsliðinu í undankeppni EM 2012 en þær voru þarna að komast í undanúrslitin á öðru heimsmeistaramótinu í röð. Spánn varð í 4. sæti á HM 2009 eftir tap á móti Noregi í leiknum um bronsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×