Handbolti

Jesper Nielsen: Við ætlum að vinna Kiel

Jesper Nielsen.
Jesper Nielsen. mynd/AG
Danska ofurliðið AG Köbehavn fær alvöru próf um helgina er það sækir besta lið Þýskalands í dag, Kiel, heim. AG ætti að fá svör í þeim leik hversu langt félagið er frá því að geta keppt við bestu lið Evrópu.

Eigandi AG, skartgripasalinn Jesper Nielsen, er kokhraustur fyrir leikinn eins og venjulega og ætlast til þess að liðið taki að minnsta kosti eitt stig á hinum erfiða heimavelli Kiel.

"Við erum í baráttu um fyrsta sæti riðilsins og þó svo Kiel sé sigurstranglegra liðið förum við þangað til þess að vinna. Við teljum okkur geta það," sagði Nielsen.

AG er á toppi riðilsins en Kiel er í öðru sæti, einu stigi á eftir.

"Þessi leikur er stórt skref í rétta átt fyrir þetta félag. Það er ótrúleg stemning í þessu húsi og þessi leikur verður mikil eldskírn fyrir okkar unga félag.

"Þetta er líka fyrsta stóra ferðalag okkar en það koma 700 manns á okkar vegum til Kiel. Þetta er líka stærsti leikur félagsins frá upphafi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×