Handbolti

HM kvenna 2011: Þórir og norsku stelpurnar í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. Mynd/Pjetur
Norska kvennalandsliðið tryggði sér sæti í úrslitaleiknum á HM kvenna í handbolta eftir öruggan átta marka sigur á Spáni, 30-22, í undanúrslitaleiknum í kvöld. Þórir Hergeirsson er þar með búinn að koma norska liðinu í úrslitaleikinn á tveimur stórmótum í röð en norsku stelpurnar urðu Evrópumeistarar undir hans stjórn í fyrra.

Noregur mætir Frakklandi í úrslitaleiknum en bæði eiga þau sameiginlegt að hafa tapað fyrir Rússum í úrslitaleikjum síðustu tveggja heimsmeistarakeppna, Frakkar árið 2009 og Norðmenn árið 2007.

Norska liðið hefur nú unnið sjö leiki í röð eftir að hafa tapað fyrsta leiknum á HM í Brasilíu á móti Þýskalandi. Þórir er greinilega að koma með liðið upp á réttum tíma og þær eru til alls líklegar í úrslitaleiknum á móti Frökkum á sunnudaginn.

Norsku stelpurnar byrjuðu mun betur, komust í 6-3 og voru 10-4 yfir þegar sextán mínútur voru liðnar. Spænsku stelpurnar gáfust ekki upp, unnu næstu fimm mínútur 5-0 og náðu að minnka muninn í eitt mark, 10-9.

Það kostaði mikla orku hjá spænska liðinu að vinna upp forskotið og það kom vel í ljós á síðustu átta mínútum hálfleiksins. Norsku stelpurnar skoruðu sex síðustu mörk fyrri hálfleiks og voru 16-9 yfir í hálfleik.

Norska liðið skoraði þrjú af fyrstu fjórum mörkum seinni hálfleiks og komst fyrir vikið átta mörkum yfir, 19-11. Spænsku stelpurnar náðu aldrei að ógna þeim eftir það og Noregur vann öruggan og sannfærandi sigur.

Katrine Lunde Haraldsen átti frábæran leik í norska markinu og varði yfir 20 skot í leiknum. Norska vörnin og hraðaupphlaupin lögðu líka grunninn að frábærum sigri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×