Handbolti

HM 2011: Svartfjallaland rétt marði sigur gegn Angóla

Sigurður Elvar Þórólfsson í Santos skrifar
Mynd/Pjetur
Angóla tapaði sínum fyrsta leik á heimsmeistaramótinu í dag þegar Svartfjallaland rétt marði 28-26 sigur í Arena Santos. Með sigrinum náði Svartfjallaland að bæta stöðu sína verulega en liðið er með 4 stig eftir 3 leiki, líkt og Angóla. Úrslitin eru ekki góð fyrir Ísland þar sem allt snýst um innbyrðisviðureignir.

Ef allt fer á versta veg hjá Íslandi og liðið nær aðeins að vinna Kína á föstudaginn þá hefði staðan verið betri að Angóla hefði unnið. Með sigrinum eru Svartfellingar komnir með 4 stig og er líklegt til þess að landa tveimur stigum til viðbótar gegn Kína sem virðist vera með slakasta liðið í riðlinum.

Angóla er með 4 stig og betri stöðu innbyrðis gegn Íslandi. Ísland þarf því að fá 3 stig í það minnsta til þess að komast í 16-liða úrslit að því gefnu að Ísland og Svartfjallaland landi sigrum gegn Kína.

Angóla hefur sýnt það á þessu móti að liðið er mun sterkara en flestir gerðu ráð fyrir. Rétt um 300 sem stunda handbolta í Angóla, 17 ára og eldri. Í deildarkeppni sem telur 5 lið í meistaraflokki kvenna og leikmennirnir koma úr tveimur liðum.

Ekki flókið kerfi en leikmenn Angóla eru margir hverjir í fremstu röð á þessu móti. Þar má nefna Marcelina Kiala nr. 18. Frábær leikmaður í sókn sem vörn, kvik, sterk og áræðin.

Um miðan síðari hálfleik náði Angóla frábærum kafla og komst í 20-19 þegar rétt um 18 mínútur voru eftir af leiknum. Það fór kliður um salinn þegar Svartfjallaland var skyndilega 2 mörkum undir, 22-20. Svartfjalland skoraði þá 6 mörk gegn 1 og komst yfir 26-23.



Markahæst í liði Svartfjallands Bojana Popovic með 6 mörk en Marcelina Kiala skoraði 7 fyrir Angóla.

Athygli vekur að markverðir Angóla náðu aðeins að verja 5 skot samtals í leiknum en Svartfjallaland var með 13 skot varin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×