Handbolti

Anna Úrsúla: Þetta var ekki nógu gott hjá okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir. Mynd/Pjetur
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, línumaður íslenska landsliðsins, var í viðtali hjá Sigurði Elvari Þórólfssyni í þættinum hjá Þorsteini Joð á Stöð 2 Sport í kvöld. Anna skoraði 3 mörk, fiskaði tvö víti og var einn besti maður íslenska liðsins.

„Þetta var ekki nógu gott hjá okkur og það er alveg sama þótt að þær séu með eitt af bestu liðunum í heimi. Mér fannst svona 20 prósent hjá okkur í öllum aðgerðum og þá aðallega í sókninni. Við vorum búnar að leggja upp að halda breidd og opna svæði, við gerðum það en náðum ekki að nýta okkur plássið sem við náðum að opna," sagði Anna Úrsúla Guðmunsdóttir.

„Þær voru hrikalega fljótar að refsa okkur og það er þeirra eiginleiki. Þeir leggja upp með vörnina og hraðaupphlaupin, þær náðu að nýta það í dag og það var það sem skapaði þennan mun," sagði Anna Úrsúla.

„Við hefðum átt að koma ákveðnari í leikinn í dag og það sést bara á tölunum. Við komum í hvern leik til að gefa hundrað prósent og þegar maður gerir það þá getur maður gengið sáttur af velli. Þess vegna er smá pirringur í okkur núna. Við gáfumst ekki upp en það vantaði smá baráttu í okkur," sagði Anna.

„Við eigum helmingsmöguleika á móti Þjóðverjum á morgun. Ef við mætum hundrað prósent í leikinn og mætum eins tilbúnar og á móti Svartfjallalandi þá er allt mögulegt. Við höfum trú á sjálfum okkur og þurfum bara að sýna okkar getu inn á vellinum og leggja allt í þetta. Ef við gerum það þá náum við góðum úrslitum," sagði Anna Úrsúla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×