Handbolti

Ólafur og Snorri Steinn fóru á kostum

Snorri í leiknum í dag.
Snorri í leiknum í dag. Mynd/Heimasíða AG
Snorri Steinn Guðjónsson og Ólafur Stefánsson fóru á kostum í danska liðinu AG sem komst í efsta sæti D-riðils Meistaradeildarinnar í dag. AG lagði spænska liðið Ademar Leon, 30-29, í háspennuleik. Ólafur skoraði sex mörk í leiknum Snorri fjögur og Guðjón Valur eitt.

Snorri Steinn Guðjónsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Ólafur Stefánsson voru allir í byrjunarliði AG í leiknum. Þetta var fyrsti leikur Ólafs í Meistaradeildinni í vetur en hann er á góðum batavegi sem eru frábær tíðindi fyrir íslenska landsliðið.

Arnór Atlason var aftur á móti í borgaralegum klæðum með rándýra mottu á bekknum en hann er meiddur.

Íslensku strákarnir léku mjög vel í fyrri hálfleik og fóru fyrir liði AG sem var undir í hálfleik, 15-16.

AG náði frumkvæði í síðari háfleik, þökk sé Snorra og Ólafi sem voru allt í öllu, en Leon kom til baka. Þegar mínúta var eftir var staðan 30-29 og AG missti boltann. Gestirnir fengu tækifæri til að jafna en Kasper Hvidt varði lokaskot leiksins glæsilega.

AG er á toppi riðilsins með 8 stig en Kiel og Leon eru bæði með 7. Leon hefur leikið einum leik meira en AG og Kiel.

Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson dæmdu leikinn og leystu sitt verkefni ágætlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×