Handbolti

Ólafur Stefánsson: Hnéð mitt öskraði á mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson.
Ólafur Stefánsson. Mynd/AFP
Ólafur Stefánsson lék sinn fyrsta heimaleik með AG kaupamannahöfn í gær og átti þá mjög góðan leik þegar liðið vann 30-29 sigur á spænska liðinu Ademar Leon í Meistaradeildinni. Ólafur var í byrjunarliðinu, skoraði sex mörk í leiknum og menn komust svo að orði að það væri ekki að sjá að hann hefði verið frá í langan tíma.

„Það var mjög gott að fá leik á þessu getustigi og sjá það að ég gat skilað einhverju til liðsins," sagði Ólafur í viðtalið við DR en hann var valinn maður leiksins.

„Þetta var hafa verið erfiðir þrír mánuðir en liðsfélagarnir hafa verið frábærir. Ég hef aldrei verið í liðið þar sem ég hef fengið svona mikla þolinmæði," sagði Ólafur.

Ólafur viðurkennir að hann hafi verið orðinn þreyttur í lokin. „Ég þurfti smá súrefni eftir að hafa verið að spila bæði vörn og sókn. Að lokum öskraði hnéð á mig," sagði Ólafur og þá spurði blaðamaðurinn hvað hnéð hafi öskrað.

„Hættu núna og settu ís á mig," svaraði Ólafur en hann hefur aðeins tekið fulla þátt í æfingum AG-liðins í fjóra daga fyrir leikinn. Allir tími hans hefur annars farið í styrktaræfingar.

„Þetta kom mér skemmtilega á óvart. Ég gerði meira en ég bjóst við að ég gæti. Ég hef einbeitt mér að styrktaræfingum til þess að geta spilað handbolta aftur. Lungun verða að koma seinna," sagði Ólafur.

AG Kaupmannahöfn er efst í sínum riðli í Meistaradeildinni með átta stig en Kiel og Ademar Leon hafa bæði sjö stig.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×