Erlent

Trúleysingjar kæra kross á minningasafni um 11. september

Krossinn fannst í rústum World Trade Center bygginganna tveggja, sem féllu í hryðjuverkaárásunum þann 11. september 2001
Krossinn fannst í rústum World Trade Center bygginganna tveggja, sem féllu í hryðjuverkaárásunum þann 11. september 2001 Mynd/AP
Trúleysingjahópurinn The American Atheists hefur nú gripið til lögsóknar vegna fyrirætlana um að setja upp kross á safni sem nú rís á reitnum þar sem tvíburaturnarnir stóðu fyrir hryðjuverkaárásirnar þann 11. september árið 2001.

Krossinn sem um ræðir er í raun tveir samfastir stálbitar sem fundust í rústum bygginganna tveggja eftir að þær hrundu. Krossinum var komið fyrir á svæðinu og stóð þar fyrst um sinn en var svo tímabundið færður í kirkju sem stendur í nágrenninu. Nú hefur hann hinsvegar verið blessaður af kaþólskum presti og færður aftur á minningasvæðið þar sem hann mun standa áfram sem hluti af sýningu safnsins.

Safnið er reist í minningu þeirra sem létu lífið í árásunum, en The American Atheists halda því fram að uppsetning krossins á safninu fari gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna. Safnið sé opinber stofnun sem ekki eigi að endurspegla ákveðin trúarbrögð. Krefst hópurinn þess því að dómari úrskurði annaðhvort að krossinn skuli fjarlægður, eða þá að önnur trúarbrögð fái jafna framsetningu á safninu.

Joe Daniels, forseti minningasvæðisins á Manhattan, segir markmið safnsins vera að segja sögu þessa örlagaríka dags með framsetningu muna á borð við krossinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×