Viðskipti erlent

Milljarða kröfur á hendur stjórnar Eik Banki og Deloitte

Stjórn hins færeyska Eik Banki og Deloitte endurskoðendur bankans horfa nú fram á a.m.k. eins milljarðs danskra kr. eða 22 milljarða kr. skaðabótakröfur í dómsmáli sem bankasýsla Danmerkur (Finansiel stabilitet) ætlar að höfða gegn þeim.

Fjallað er um málið í flestum fjölmiðlum Danmerkur í morgun. Sem kunnugt er af fréttum varð Eik Banki gjaldþrota í lok síðasta árs og töpuðu hluthafar hans um 6 milljörðum danskra kr. eða yfir 700 milljörðum kr. Talið er að danska ríkið muni síðan tapa um 3 milljörðum danskra kr. á gjaldþrotinu.

Bankasýsla Danmerkur fékk lögmanninn Carsten Fode til að vinna skýrslu um gjaldþrot Eik Banki og aðdraganda þess. Í skýrslunni kemur fram hörð gagnrýni á stjórn bankans og endurskoðendur hans og þar segir m.a. að við hálfs árs uppgjör bankans árið 2009 hafi verið ljóst að staðan var kolsvört og bankinn í raun ekki greiðslufær. Með að því að halda áfram óbreyttum rekstri frá þeim tíma hafi stjórn, stjórnendur og endurskoðendur bankans skapað sér ábyrgð á tapi bankans.

Á grundvelli skýrslu Carsten Fode hefur Bankasýslan ákveðið að höfða skaðabótamál á hendur níu einstaklingum sem mynduðu stjórn bankans og voru endurskoðendur hans á tímabilinu frá miðju ári 2009 og fram til þess að Eik Banki var lýstur gjaldþrota í október í fyrra.

Talsmenn Deloitte hafa tjáð sig um málið og segja að misskilnings gæti hjá Carsten Fode um þátt þeirra í málinu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×