Viðskipti innlent

Lundin að léttast hjá Íslendingum

Svo virðist sem væntingar neytenda hafi heldur betur glæðst nú í maí ef marka má Væntingavísitölu Gallup sem birt var í morgun. Að þessu sinni hækkaði vísitalan um tæp 11 stig á milli mánaða og mælist gildi hennar nú 66,3 stig.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að hér sé um mikinn viðsnúning á þróun væntingavísitölunnar að ræða sem hefur lækkað stöðugt síðustu þrjá mánuði, og í raun hefur gildi hennar aðeins þrívegis mælst hærra frá því á haustdögum 2008. Það átti sér stað í júlí, ágúst og september í fyrra en hæst fór vísitalan upp í 69,9 stig sem var í ágústmánuði. Þó er ljóst að enn er nokkuð í land með að landinn geti talist vera bjartsýnn þar sem fleiri neytendur eru svartsýnir en bjartsýnir þegar gildi vísitölunnar er undir 100 stigum.

Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar hækkuðu á milli apríl og maí síðastliðins sem bendir til þess að væntingar neytenda til núverandi ástands í efnahags- og atvinnumálum jafnt og ástandsins eftir sex mánuði séu meiri nú en fyrir mánuði síðan. Mest hækkar vísitalan sem mælir væntinga neytenda eftir 6 mánuði en hún hækkar um tæp 14 stig og mælist nú rétt tæplega 100 stig. Mat á núverandi ástandi hækkar jafnframt þó nokkuð, eða um tæp 7 stig á milli mánaða og mælist gildi þeirrar vísitölu 16,3 stig sem er næsthæsta gildi sem hún hefur náð frá hruni. Þó er nokkuð ljóst að lund landans er fyrst og fremst bundin framtíðinni enda er gildi vísitölunnar fyrir mat á núverandi ástandi enn verulega lágt.

Svo virðist sem kjarasamningarnir sem nú hafa verið undirritaðir setji sitt mark á þróun væntingavísitölunnar í maí. Þetta má sjá þegar litið er á þróunina á undirliðum vísitölunnar sem sýnir hvernig væntingar einstaklinga þróast mismunandi eftir tekjustigum þar sem einstaklingum er skipt niður í 4 hópa. Þar má sjá að væntingar tekjulægsta hópsins, þ.e. með tekjur undir 250 þúsund á mánuði, jukust langmest í maí, en í apríl mældist vísitala þeirra 43,6 stig og mánuðinn þar á undan var hún enn lægri, eða 24,1 stig. Nú í maí mælist vísitalan 72,9 stig og hefur hún þar með hækkað um tæp 30 stig frá fyrri mánuði og um rétt undir 50 stig frá því í mars. Væntingavísitala þeirra mælist í raun litlu lægri en þeirra sem er í tekjuhæsta hópnum, þ.e. með tekjur umfram 550 þúsund á mánuði. Vísitala tekjuhæsta hópsins mældist 79,2 stig í maí og hækkaði um 12 stig frá fyrri mánuði.

Næstmest jukust væntingar einstaklinga í næstlægsta tekjuhópnum, þ.e. með tekjur á bilinu 250-399 þúsund. Mældist vísitala þess hóps nú í maí 61,1 stig og hækkaði um rúm 18 stig frá fyrri mánuði.

Á hinn bóginn þyngdist nokkuð brún þeirra einstaklinga sem eru með tekjur á bilinu 400-549 þúsund, þ.e. næsthæsta tekjuhópsins. Mældist vísitala þessa hóps 58,3 stig og lækkar um rúm 7 stig frá fyrri mánuði og í raun var þetta eini hópurinn sem varð svartsýnni nú í maí en hann var mánuðinn á undan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×