Viðskipti innlent

Hugmyndir um að fækka sparisjóðum

Sparisjóðum landsins gæti fækkað í þrjá til fimm á næstunni samkvæmt nýrri skýrslu starfshóps um framtíð sparisjóðakerfisins. Til greina kemur að sameina jafnvel alla sjóði landsins í einn.

Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu RUV. Þar segir að breytingar hafa verið boðaðar á kerfinu en hópurinn dregur fram þá valkosti sem helst koma til greina. Í fyrsta lagi að kerfið starfi óbreytt með tíu sparisjóði. Það þykir þó óraunhæft. Í öðru lagi að allir sjóðirnir verði sameinaðir í einn. Í þriðja lagi að nokkrir sparisjóðir verði sameinaðir svo eftir standi þrír til fimm.

Í skýrslunni er fjallað um nokkra mögulega sameiningarkosti en sú regla þó viðhöfð að eftir mögulega sameiningu starfi þeir áfram sem staðbundin fjármálafyrirtæki. Þess vegna er ekki lagt upp með að sparisjóðir í sitthvorum landshlutanum sameinist. Mögulegt þykir að sameina sparisjóð Bolungarvíkur og Sparisjóð Strandamanna á Vestfjörðum, á Tröllasakaga mætti sameina  Sparisjóðinn AFL og Sparisjóð Ólafsfjarða.

Í Eyjafirði kæmi til greina að sameina Sparisjóði Svarfdæla og Höfðhverfinga og í Þingeyjarsýslum væri hægt að sameina Sparisjóð suður Þingeyinga og Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis. Loks mætti sameina í einn Sparisjóð Norðfjarðar og Sparisjóð Vestmannaeyja. Stjórnir sjóðanna fjalla nú um hugmyndirnar og taka afstöðu til þeirra áður en bankasýslan fundar með fulltrúum þeirra síðar í mánuðinum,  að því er segir í frétt RUV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×