Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag Íslands snarlækkar

Skuldatryggingaálag Íslands hefur snarlækkað í dag og stendur í 215 punktum. Álagið var í 260 punktum fyrir síðustu helgi samkvæmt vefsíðunni keldan.is sem aftur sækir upplýsingar sínar til Bloomberg/CMA gagnaveitunnar.

Skuldatryggingaálag Íslands fór lægst í 220 punta í ár í fyrstu vikunni í apríl og hafði þá ekki verið lægra síðan árið 2008.

Þessi lækkun er í takti við að skuldatryggingaálög annarra ríkja í fjárhagserfiðleikum hafa einnig lækkað en þó mun minna en Íslands. Hér er átt við ríki á borð við Grikkland, Ítalíu og Spán. Álagið á Ísland liggur nú töluvert lægra en álagið á Spáni sem stendur nú í 250 punktum.

Ástæðuna fyrir mikilli lækkun á álagi Íslands má eflaust rekja að stórum hluta til vel heppnaðra endurkaupa Seðlabankans á evrubréfum ríkissjóðs í síðustu viku fyrir 57 milljarðar kr. Þá vildu fjárfestar sem enn halda á um 73 milljörðum kr. af þessum bréfum ekki selja þau. Þetta bendir til að fjárfestarnir telji öruggt að bréfin verða greidd upp í árslok og upphafi ársins 2012.

Álag upp á 215 punkta þýðir að það kostar 2,15% af nafnverði skuldabréfa til fimm ára að tryggja þau fyrir greiðslufalli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×