Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir orðnir helstu lánadrottnar heimilanna

Lífeyrissjóðirnir eru orðnir lánadrottnar tæplega tveggja þriðju hluta af verðtryggðum skuldum íslenskra heimila. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um eignir lífeyrissjóðanna sem núna nema 1.965 milljörðum kr.

Í Morgunkorninu segir að á sama tíma og hlutabréfaeign lífeyrissjóðanna hefur hrunið hefur önnur breyting orðið á eignasamsetningu lífeyrissjóðanna, ekki síst undanfarið ár,  sem er tilfærsla úr erlendum eignum yfir í verðtryggð skuldabréf með íbúðaveði.

Séu íbúðabréf, húsnæðisbréf, húsbréf og sjóðfélagalán lífeyrissjóðanna lögð saman og borin saman við erlendar eignir sjóðanna má sjá að hlutfall þessara tveggja eignaflokka var lengst af svipað frá miðjum síðasta áratug, þótt fyrrnefndi eignaflokkurinn hafi tekið forystusætið af hinum síðarnefnda í kjölfar alþjóðlegu efnahagskreppunnar undir árslok 2008.

Nú er hins vegar svo komið að verðtryggð skuldabréf með íbúðaveði nema tæplega 750 milljörðum kr. í bókum lífeyrissjóðanna, en erlendar eignir þeirra nema 483 milljörðum kr.

„Veruleg breyting í þessa átt varð á vordögum í fyrra þegar lífeyrissjóðirnir eignuðust í svokölluðum Avens-viðskiptum talsverðan hluta útistandandi íbúðabréfa og greiddu fyrir með gjaldeyri sem aflað var með sölu erlendra eigna. Lífeyrissjóðirnir eru því beint eða óbeint lánardrottnar tæplega tveggja þriðju hluta verðtryggðra skulda íslenskra heimila,“ segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×