Handbolti

Dagur ræddi við þýska handknattleikssambandið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur hefur náð frábærum árangri með bæði Füchse Berlin og austurríska landsliðið.
Dagur hefur náð frábærum árangri með bæði Füchse Berlin og austurríska landsliðið. Nordic Photos / Bongarts
Dagur Sigurðsson segir að hann hafi átt í viðræðum um að taka við starfi landsliðsþjálfara Þýskalands á dögunum en að ekkert hafi enn komið úr þeim.

Bob Hanning, framkvæmdarstjóri Füchse Berlin, staðfesti í þýskum fjölmiðlum í gær að Dagur hafi rætt við forráðamenn þýska handknattleikssambandsins en fréttir um þetta birtust fyrst í Þýskalandi í síðasta mánuði.

„Ég var einn af þeim sem komu til greina en það er ekkert nýtt í stöðunni. Ég hef ekki fengið tilboð eða neitt slíkt,“ sagði Dagur í samtali við Vísi í morgun.

„Þar að auki er þetta ekki í mínum höndum. Ég er með samning við Füchse Berlin í tvö ár í viðbót og þeir þyrftu að leggja blessun sína yfir þetta. Þýska handboltasambandið þyrfti því að klára málið fyrst þeim megin.“

Heiner Brand, núverandi landsliðsþjálfari, er með samning til 2013 en sterkar vísbendingar eru um að hann muni hætta nú í sumar. Aðrir sem voru orðaðir við stöðuna voru Martin Heuberger, núverandi aðstoðarmaður Brand, Velemir Petkovic, þjálfari Göppingen, og Staffan Olsson, landsliðsþjálfari Svíþjóðar.

„Mér hugnast það alveg að gerast landsliðsþjálfari Þýskalands alveg eins og að halda áfram með Füchse Berlin. Það er mjög spennandi verkefni fram undan þar líka,“ sagði Dagur.

„Það er alveg ljóst að það er ekki möguleiki að vera með bæði, það er alveg poittþétt. Maður þyrfti að hrökkva eða stökkva ef til kæmi.“

Füchse Berlin er þegar búið að tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en liðið hefur komið mjög á óvart í þýsku úrvalsdeildinni í vetur. Dagur náði einnig frábærum árangri með austurríska landsliðið sem hann stýrði þar til í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×