Viðskipti innlent

Raunvöxtur greiðslukortaveltu sá mesti frá sumrinu 2007

Raunvöxtur greiðslukortaveltu í apríl frá sama tíma í fyrra var sá mesti frá sumrinu 2007. Þótt taka verði tillit til áhrifa af páskaveltu, sem að hluta til féll á marsmánuð í fyrra en að langmestu leyti á aprílmánuð þetta árið, virðist sem einkaneysla sé að sækja í sig veðrið nú á öðrum fjórðungi ársins.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans nam kreditkortavelta í aprílmánuði síðastliðnum 27,7 milljörðum kr. Að teknu tilliti til þróunar verðlags og gengis jókst veltan að raungildi um nærri 12% frá sama mánuði í fyrra.

Líkt og undanfarna mánuði var aukningin mun meiri í erlendri kreditkortaveltu, en hún óx um 23% að raunvirði á meðan innlend kortavelta jókst um ríflega 9%.

Talsverð aukning varð einnig á debetkortaveltu einstaklinga innanlands, en hún óx um rúmlega 7% að raunvirði í aprílmánuði frá sama mánuði árið áður. Velta debetkorta er mæld eftir almanaksmánuðum í tölum Seðlabankans á meðan kreditkortavelta er mæld eftir kortatímabilum, og hefur því hluti debetkortaveltu vegna páskanna í fyrra væntanlega fallið til í mars, enda voru páskarnir í blábyrjun aprílmánaðar árið 2010.

„Páskarnir skýra þó að mati okkar ekki mestan hluta þeirrar aukningar sem varð á kortaveltu að raungildi milli aprílmánaða í fyrra og nú í ár, enda jókst samantekin kortavelta einstaklinga einnig talsvert í marsmánuði á milli ára," segir í Morgunkorninu.

„Ráða má af kortaveltutölum og öðrum vísbendingum á borð við innflutning neysluvara að einkaneysla hafi tekið töluvert við sér í mars og apríl eftir lítinn vöxt á fyrstu mánuðum ársins, samanborið við sömu mánuði árið á undan.

Aðra sögu er að segja af kortaveltu vegna erlendra greiðslukorta hérlendis. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga minnkaði slík velta um nærri 11% í aprílmánuði frá sama mánuði í fyrra. Hér má raunar ætla að áhrif gossins í Eyjafjallajökli í fyrra séu einhver, en þeir útlendingar sem urðu strandaglópar hér á landi vegna gossins hafa vitaskuld orðið að verja meira fé til uppihalds hérlendis í aprílmánuði í fyrra en til stóð.

Mismunurinn á kortaveltu Íslendinga erlendis og veltu útlendinga hér á landi nemur 7,8 milljörðum kr. það sem af er ári, landanum í óhag, en á sama tímabili í fyrra var þessi tala 3,3 ma.kr. Íslendingum í óhag. Gjaldeyrisútflæði vegna þessa er því væntanlega að sama skapi meira það sem af er ári, og líklegt er að „ferðamannajöfnuður", mældur á þennan kvarða, verði eitthvað óhagstæðari í ár en raunin var í fyrra."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×