Viðskipti innlent

Íslenskur tölvuleikur fékk milljóna styrk í Svíþjóð

Nýtt íslenskt tölvuleikjafyrirtæki, Plain Vanilla, fékk í gær 400.000 danskra kr., eða um 8,8 milljóna kr., styrk frá Nordic Game Program. Styrkurinn var afhentur við hátíðlega athöfn í Malmö, Svíþjóð þar sem 15 norræn tölvuleikjafyrirtæki fengu afhenda þróunarstyrki.

Í tilkynningu segir að Plain Vanilla þróar nú tölvuleik fyrir snjallsíma og spjaldtölvur sem heitir The Moogies  en leikurinn er ætlaður fyrir börn á aldrinum 2-6 ára. The Moogies er tölvuleikur þar sem barnið talar við og leikur sér við hóp af teiknimyndadýrum sem hafa verið þróaðar sérstaklega fyrir leikinn. Mikil áhersla hefur verið lögð á persónusköpun og útlit í leiknum, en hann hefur verið í þróun hjá Plain Vanilla í sex mánuði.

Áætlað er að gefa út fyrsta leikinn um The Moogies í sumar en Plain Vanilla ætlar sér að gefa út röð af leikjum og öðru barnaefni í sama myndheimi og The Moogies.

Plain Vanilla var stofnað í október 2010 með þá sýn að búa til hágæða tölvuleiki fyrir börn sem væru í senn þroskandi og skemmtilegir.  Með tilkomu nýrra dreifingarleiða á tölvuleikjum í gegnum netið gefst íslenskum leikjafyrirtækjum kostur á að bjóða upp á framleiðslu sína á öllum markaðssvæðum í heiminum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×