Handbolti

Brand vill ekki skipta um starf við Dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þýskalands, segist ekki vera að velta því fyrir sér hvort hann eigi að skipta um starf við Dag Sigurðsson, þjálfara Füchse Berlin.

Dagur er einn þeirra sem koma til greina sem eftirmaður Brand hjá landsliðinu ef hann mun hætta í sumar. Brand er hins vegar samningsbundinn þýska handknattleikssambandinu til 2013.

„Ég mun ákveða mig í maí,“ sagði Brand en Þjóðverjar eiga sína síðustu leiki í undankeppni EM 2012 í júní næstkomandi. Þýskaland er í sama riðli og Ísland í undankeppninni.

Bob Hanning, framkvæmdarstjóri Füchse Berlin, viðraði þá hugmynd í þýsku fjölmiðlum að fá Brand í staðinn fyrir Dag, kjósi þýska sambandið að semja við þann síðarnefnda.

„Ég sé ekki fyrir mér að ég muni snúa aftur í þýsku úrvalsdeildina,“ sagði Brand sem þjálfaði síðast í deildinni áður en hann tók við starfi landsliðsþjálfara árið 1997.

„Ég hef ekkert rætt við Füchse þó svo að verkefnið þar sé spennandi fyrir hvaða þjálfara sem er. Ég er hins vegar ekkert að velta þessu fyrir mér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×