Viðskipti innlent

Þurfa að segja upp starfsfólki í sjávarútvegi

JMI skrifar
Útgerðarfyrirtæki þurfa að segja upp fólki og leggja skipum ef frumvörp sjávarútvegsráðherra um stjórn fiskveiða verða að lögum, að mati framkvæmdastjóra LÍÚ.

Sjávarútvegsráðherra kynnti frumvörpin á fréttamannafundi í dag en þau eru tvö. Annars vegar frumvarp til laga um breytingu á núgildandi lögum, sem er öllu minna frumvarp, en hins vegar nýtt frumvarp til laga um stjórn fiskveiða.

Sjávarútvegsráðherra gerir ráð fyrir því að minna frumvarpið verði samþykkt á þessu vorþingi. Það kveður meðal annrs á um aukningu á strandveiðumm, aukningu heimilda í byggðatengdum aðgerðum, og jöfnunaraðgerð í þá veru að allir aflamarkshafar taki þátt í að leggja til í svo kallaða hluti eða potta. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að veiðigjaldið hækki um 70%.

Stærra frumvarpið kveður á um samningaleiðina, en Jón Bjarnason segist vera bjartsýnn að Alþingi samþykki það fyrir jól.

Í frumvarpinu kemur fram að handhafar aflahlutdeildar og krókaleyfa fá heimild til að gera 15 ára samning um nýtingarleyfi og rétt til að leita eftir framlengingu samningsins til næstu 8 ára. Í minnisblaði með frumvarpinu kemur fram að þessi breyting sé sú mikilvægasta í af þeim sem finna má í frumvarpinu. Með frumvarpinu séu tekin af öll tvímæli um meint eignarréttarlegt samband útgerðar og auðlindarinnar, sem er þar með óvéfengjanlega þjóðareign.

Þá er tilfærsla á aflamarki til eins árs og varanlegum aflahlutdeildum milli aflamarkskerfa, bönnuð.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir það alveg ljóst að þessi löggjöf muni veikja íslenskan sjávarútveg og gera honum illmögulegt til að standa undir því samfélagi sem við búum í. Friðrik segir að þeir sem hafi ætlað sér að leggja íslenskan sjávarútveg í rúst hafi tekist ætlunarverk sitt nokkuð vel.

Friðrik bendir á að útgerðarfyrirtækin hafi reiknað með því að ný löggjöf gæfi þeim afnotatíma sem gerði reksturinn arðbærann. Þetta hafi m.a. mikil áhrif á lánskjör og aðra þætti. Allt þetta hafi mikil áhrif á sjávarútveginn. Það verði uppsagnir ef frumvarpið nái fram að ganga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×