Viðskipti innlent

Skattar einstæðra tekjulágra foreldra hækkuðu mest

Skattbyrði jókst mest á einstæða tekjulága foreldra á Íslandi síðasta ári. Almennt hækkuðu skattar meira hér en í nokkru öðru OECD ríki.

Þetta kemur fram í nýjustu skattaúttekt Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.

Þar eru teknir saman skattar á laun einstaklinga og fjölskyldna í mismunandi tekjuhópum í aðildarríkjunum, en inni í skatthlutfallinu eru tekjuskattur, lífeyrisgreiðslur og önnur launatengd gjöld, eftir að tillit hefur verið tekið til bóta.

Á Íslandi hækkaði hlutfallið um 3,3 prósentustig á síðasta ári frá árinu áður, fyrir einstakling með rúmlega 360 þúsund krónur í meðaltekjur. Skattarnir hækkuðu enn meira fyrir einstæða foreldra með tvö börn á framfæri og tekjur undir meðallagi, en skattbyrði þeirra hækkaði um 5,6 prósentustig.

Raunar jókst skattbyrðin í tuttugu og tveimur af þrjátíu og fjórum aðildarríkjum stofnunarinnar á síðasta ári, en hvergi jafnmikið og á Íslandi.

Eftir sem áður er skattbyrðin minni hér en víðast annarstaðar. Fyrir einstakling með meðaltekjur er skattbyrðin nú undir meðaltali OECD, sem er um 35 prósent. Íslendingar komast þó ekki með tærnar þar sem skattakonungar Evrópu hafa hælana, en meðallaunamaður í Belgíu greiðir meira en 55 prósent launa sinna í skatt. Fyrir einstætt foreldri undir meðaltekjum er skatturinn sömuleiðis undir meðaltali, sem er tæp 16 prósent í OECD ríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×