Viðskipti innlent

Skattar hækkuðu verðtryggð lán heimila um 18 milljarða

Skattahækkanir stjórnvalda frá febrúar árið 2009 til febrúar í fyrra höfðu þau áhrif að hækka verðtryggð lán heimila um rúma 18 milljarða kr.

Þetta kemur fram í svari efnahags- og viðskiptaráðherra á Alþingi við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur þingmanns Hreyfingarinnar um verðtryggð lán íslenskra heimila og fyrirtækja.

Margrét spurði hve mikið hafa verðtryggð lán íslenskra heimila hækkað á tímabilinu frá 1. febrúar 2009 til 1. febrúar 2011, í krónum annars vegar og prósentum hins vegar, vegna skattahækkana og annarra aukinna álaga af hálfu ríkisins sem hafa áhrif á vísitölu neysluverðs?

Í svarinu segir: „Áhrif skattahækkana á vísitölu neysluverðs eru um 1,50% frá 1. febrúar 2009 til 1. febrúar 2011 samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands. Það þýðir að verðtryggð lán íslenskra heimila hækkuðu sem því nemur að nafnvirði. Í febrúar sl. voru verðtryggð lán heimilanna um 1.220 milljarðar kr. og því nemur hækkunin að nafnvirði um 18,3 milljörðum kr. á tímabilinu. Almenn vörugjöld eru ekki með talin þar sem Hagstofan greinir áhrif þeirra ekki með beinum hætti í vísitölunni."

Margrét vildi einnig fá sambærilegt svar um áhrifin á lán fyrirtækja. Í því svari segir að samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands voru verðtryggð lán fyrirtækja og eignarhaldsfélaga í febrúar 2011 um 205 milljarðar kr. og því nemur hækkunin að nafnvirði um 3 milljörðum kr. á tímabilinu. Almenn vörugjöld eru ekki með talin þar sem Hagstofan greinir þau ekki með beinum hætti í vísitölunni.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.