Handbolti

Guðjón Valur hefur átt í viðræðum við AG

Guðjón Guðmundsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Mynd/Valli
Guðjón Valur Sigurðrsson, landsliðsmaður í handbolta og leikmaður þýska liðsins Rhein-Neckar Löwen, staðfestir í samtali við Vísi að hann hefði átt í viðræðum við eiganda danska stórliðsins AG um hugsanlegan samning við danska félagið.

Guðjón Valur sagði ennfremur að hann ætti eitt ár eftir af samningi sínum í Þýskalandi og AG væri ekki eina liðið sem hefði falast eftir hans starfskröftum. Hann hefur hinsvegar ekki enn ákveðið hvar hann myndi leika á næstu leiktíð.

„Ég verð auðvitað að skoða þetta tilboð en hinu er ekki að neita að ég hef verið frá vegna meiðsla og þarf væntanlega að fara í ítarlega læknisskoðun ef ég á annað borð færi til Danmerkur," sagði Guðjón Valur sem hefur leikið í tíu ár í Þýskalandi með Essen, Gummersbach og Rhein-Neckar Löwen.

Íþróttadeildin hefur einnig heimildir fyrir því að AG sé þegar búið að ræða við línumanninn Róbert Gunnarsson. Það hefur hinsvegar legið fyrir frá því í haust að Ólafur Stefánsson fari til AG í sumar.

Það hefur vakið athygli að eigandi danska liðsins, Jesper Nielsen, nefnir líka til sögunnar Pólverjann Krzysztof Lijewski sem þegar hefur gengið frá samkomulagi við Rhein-Neckar Löwen. Jesper segir einnig að Karol Bielecki, leikmaður Rhein-Neckar Löwen, sé á leiðinni til AG fyrir næsta tímabil.

Þetta allt þykir styrkja þær sögusagnir að danski skartgripasalinn ætli alfarið að setja sitt fjármagn í danska félagið og hætta sem aðalstyrktaraðili Rhein-Neckar Löwen.

Auðkýfingurinn greindi líka frá því að blaðamannafundi í Kaupamannhöfn í gær að danska liðið gæti ekki tekið við fleiri styrktaraðilum því það væri einfaldlega uppselt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×