Skoðun

Litlir eða stórir grunnskólar

Gunnlaugur Sigurðsson og Haraldur Finnsson skrifar
Haraldur Finnsson fyrrverandi skólastjóri Réttarholtsskóla
Miklar umræður hafa verið undanfarið vegna fyrirhugaðra breytinga stjórnvalda í Reykjavík á stjórnun og skipan leik- og grunnskóla í Reykjavík. Því miður virðast viðbrögð við tillögunum einkennast af andstöðu við allar breytingar en ekki faglegum rökum. Ein af fyrirhuguðum aðgerðum er að flytja til unglingadeildir og hafa þær færri og stærri.

Undirritaðir eyddu starfsævi sinni við kennslu og stjórnun í unglingaskólum og teljum okkur því þekkja nokkuð til þeirra mála. Um árabil einkenndist uppbygging grunnskóla í Reykjavík af heildstæðum skólum með 1.-10.bekk. Eftir stóðu þrír skólar sem eingöngu voru með unglingadeildir.Í nýbyggðum hverfum er gjarnan mikill barnafjöldi fyrstu árin en síðan fækkar mjög, þó mismunandi eftir samsetningu íbúða í hverfunum. Undanfarin ár hefur fækkað mjög í mörgum þessara heildstæðu skóla, árgangar farið niður í einn til tvo bekki. Slíkar einingar eru erfiðar og dýrar í rekstri. Á barnastigi hefur víða verið þróuð samkennsla árganga til hagræðingar og reynst vel. Á unglingastigi er slíkt erfiðara. Ætlast er til að unglingar eigi kost á verulegu vali í námi eftir áhuga og vilja. Í litlum unglingadeildum er nánast ómögulegt að bjóða upp á fjölbreytt val og alls ekki nema með verulegum kostnaði. Þá eru mjög að aukast kröfur um að duglegir nemendur geti hafið nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi þegar í efstu bekkjum grunnskólans og geti þannig flýtt fyrir sér í framhaldsskólanum. Í umræðum um styttingu framhaldsskólans hefur verið rætt um að flytja hluta námsefnis framhaldsskólans niður í grunnskólann.Á unglingastigi verður að bjóða upp á sem mesta fjölbreytni í námi. Til að slíkt sé gerlegt þarf nokkra bekki í hvern árgang og sérhæfða kennara í hinum ýmsu námsgreinum. Kennara sem hafa bæði fagkunnáttu og áhuga á námsefninu til að kveikja áhuga meðal nemendanna. Einnig er mikilvægt að geta boðið upp á fjölbreytta sérfræðiþjónustu sem miðuð er við unglingsárin og umbrotin sem þeim fylgja. Mikla námsráðgjöf, sálfræðiþjónustu, sérkennslu fyrir þá sem þess þurfa, fjölbreytt úrval list- og verkgreina og ekki síst öflugt og fjölbreytt félagslíf þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Til að koma til móts við þessar kröfur allar er ljóst að sæmilega stórar einingar á unglingastigi eru mjög hagkvæmar, bæði fjárhagslega og ekki síður faglega. Í fámennum byggðarlögum verður ekki hjá því komist að búa við fámennar unglingadeildir en í þéttbýlinu hér er það óþarfi. Undanfarið hafa komið fram áhyggjur af að drengir virðast þrífast verr en stúlkur í grunnskólanum, ekki síst á unglingastiginu.

Stórir unglingaskólar geta boðið upp á mikla fjölbreytni bæði í valgreinum og einnig í námsaðgreiningu eftir stöðu nemandans í hverri námsgrein. Einhæfni í tilboðum skólans á unglingsaldrinum hlýtur að koma sér illa. Kannanir sýna að raddir um að meiri hætta sé á einelti og áhættuhegðun í stórum unglingadeildum eiga ekki við rök að styðjast. Dæmi eru um að einelti mælist mun minna í slíkum skólum en öðrum. Þá sýna niðurstöður í samræmdum prófum og í Písakönnuninni ótvírætt góðan árangur nemenda í unglingaskólum og stórum unglingadeildum.

Nú þegar öllum ætti að vera ljóst að fyllstu hagkvæmni þarf að beita í rekstri ætti ekki að vera erfitt að samþykkja breytingar sem jafnframt benda til faglegra ávinninga.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.