Viðskipti innlent

Óskað kyrrsetninga á eignum Jóns Ásgeirs um allan heim

Þá hefur dómstóll í London gefið út úrskurð, að kröfu Glitnis, um kyrrsetningu eigna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar um víða veröld. Þeirra á meðal eru tvær íbúðir í auðmannahverfinu Gramercy Park á Manhattan sem hann keypti á u.þ.b. 25 milljónir dala.
Þá hefur dómstóll í London gefið út úrskurð, að kröfu Glitnis, um kyrrsetningu eigna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar um víða veröld. Þeirra á meðal eru tvær íbúðir í auðmannahverfinu Gramercy Park á Manhattan sem hann keypti á u.þ.b. 25 milljónir dala.
Dómstóll í London hefur óskað eftir kyrrsetningu á eignum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar hvar sem er í heiminum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem slitastjórn Glitnis sendi frá sér í nótt.

Óháð málaferlunum í New York fékk slitastjórn Glitnis banka í gær, 11. maí 2010, úrskurð dómstóls í London um kyrrsetningu eigna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar um allan heim. Þá hefur slitastjórnin krafist kyrrsetningar á eignum Jóns Ásgeirs, Lárusar Welding og Pálma Haraldssonar, áður stjórnarmanns Glitnis banka, á Íslandi.

Í tilkynningunni segir að Glitnir banki hóf í gær málaferli fyrir hæstarétti New York-ríkis í Bandaríkjunum gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, áður helsta hluthafa bankans; Lárusi Welding, áður forstjóra Glitnis; Þorsteini Jónssyni, áður stjórnarformanni; ásamt fleiri fyrrverandi stjórnarmönnum, hluthöfum og öðrum sem áttu hlut að máli með Jóni Ásgeiri, fyrir að hafa með sviksamlegum og ólöglegum hætti haft fé af bankanum sem nemur meira en tveimur milljörðum dala.

Glitnir höfðar jafnframt mál gegn PricewaterhouseCoopers, fyrrum endurskoðendum bankans, fyrir að greiða fyrir og taka þátt í að dylja þau sviksamlegu viðskipti sem Jón Ásgeir og félagar komu í kring og sem að endingu leiddu til falls bankans í október 2008.

Þá hefur dómstóll í London gefið út úrskurð, að kröfu Glitnis, um kyrrsetningu eigna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar um víða veröld. Þeirra á meðal eru tvær íbúðir í auðmannahverfinu Gramercy Park á Manhattan sem hann keypti á u.þ.b. 25 milljónir dala.

Jón Ásgeir - aðaleigandi fjárfestingarsamstæðunnar Baugs, sem nú hefur komist í þrot - mun vera til heimilis í Bretlandi.Hann situr þar í stjórn nokkurra vel þekktra fyrirtækja, þ. á m. Iceland Foods og House of Fraser, sem bæði eru meðal kunnustu smásölufyrirtækja þar í landi.

Gögn málsins, sem dómfest var í New York 11. maí, leiða í ljós:

Hvernig klíka fésýslumanna, undir forystu Jóns Ásgeirs, tók sig saman um að hafa með skipulegum hætti fé af Glitni til að styðja við sín eigin fyrirtæki þegar þau riðuðu til falls.

Hvernig Jón Ásgeir og samsærismenn hans brutust til valda í Glitni, losuðu sig við reynda starfsmenn bankans eða settu þá til hliðar og misnotuðu þessa valdastöðu til að tefla fjárhag bankans í bráðan voða.

Hvernig Jón Ásgeir, Lárus Welding og aðrir, sem stefnt er í málinu, sköpuðu sér aðstöðu til að ná fé út úr bankanum og halda gerðum sínum leyndum með því að taka völdin af fjárhagslegri áhættustýringu Glitnis, brjóta gegn íslenskum lögum um bankarekstur og setja á svið aragrúa flókinna viðskipta.

Hvernig hin stefndu höfðu, með hlutdeild PricewaterhouseCoopers, aflað milljarðs dala frá fjárfestum í New York án þess að láta hið sanna koma í ljós um hvílíkar áhættu bankinn hafði tekið á sig gagnvart Jóni Ásgeiri og samsærismönnum hans.

Hvernig viðskipti hinna stefndu ollu Glitni meira en tveggja milljarða dala tjóni og áttu drjúgan þátt í falli bankans.

Slitastjórn Glitnis stendur fyrir málaferlunum. Hún var skipuð til að annast skipti á búi bankans. Málaferlin voru undirbúin með rækilegri rannsókn þar sem farið var í saumana á stjórnun og viðskiptum Glitnis síðustu árin fyrir fall bankans.

Fyrir hönd kröfuhafa Glitnis ætlar slitastjórnin að kosta kapps um að endurheimta eignir sem Jón Ásgeir og önnur hinna stefndu höfðu af bankanum en til þess telur hún dómstól New York-ríkis viðeigandi vettvang. Kjarni þessarar málssóknar er útboð skuldabréfa upp á einn milljarð dala. Bréfin voru seld í september 2007 til fjárfesta í New York, sem höfðu verið blekktir varðandi fjárhagslega áhættu Glitnis. Af um níu þúsund kröfuhöfum Glitnis eru nálægt 90% frá öðrum löndum en Íslandi.

„Gögn liggja fyrir sem styðja þá ályktun að Glitnir banki hafi verið rændur innan frá," segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis. „Málshöfðunin í dag er jákvætt skref í þá átt að draga til ábyrgðar þann fámenna hóp sem af ásetningi eða vanrækslu átti svo ríkan þátt í falli bankans."

Mál slitastjórnar Glitnis banka flytja Steptoe & Johnson LLP í New York og Slaughter and May í London.






Tengdar fréttir

Jóni Ásgeiri stefnt fyrir dómstól í New York

Skilanefnd Glitnis hefur stefnt sjö aðaleigendum og stjórnendum bankans fyrir dómstól í New York vegna 2 milljarða dala kröfu. Upphæðin nemur um 260 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi bandaríkjadals í dag.

Bandarískir fjárfestar blekktir með sviksamlegum hætti

„Til að fjármagna þessar greiðslur út úr bankanum hafi stefndu mjög stuðst við það fé sem Glitnir aflaði í Bandaríkjunum á árinu 2007, sér í lagi með sölu á skuldabréfum fyrir einn milljarð dala til fjárfesta í New York og víðar í Bandaríkjunum í september það ár. Þegar sú sala stóð yfir voru bandarískir fjárfestar blekktir með sviksamlegum hætti varðandi þá miklu áhættu sem Glitnir hafði tekið gagnvart Jóni Ásgeiri ásamt fyrirtækjum og einstaklingum í tengslum við hann."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×