Viðskipti innlent

Rannsaka tölvupósta hluthafa til Lárusar Welding

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Fjármálarannsóknarfyrirtækið Kroll hefur sýnt tölvupóstum á milli hluthafa og forstjóra Glitnis sérstakan áhuga. Niðurstöður Kroll verða birtar opinberlega þegar þær liggja fyrir.

Skilanefnd Glitnis réð fjármálarannsóknarfyrirtækið Kroll til að fara yfir bókhald og millifærslur hjá Glitni banka fyrir bankahrunið. Um gríðarlega virt fyrirtæki er að ræða í viðskiptaheiminum á sviði bókhaldsrannsókna, eða því sem enskumælandi þjóðir kalla forensic accounting.

Kroll hefur undanfarna mánuði tekið skýrslur af mörgum fyrrverandi starfsmönnum Glitnis og haft vinnuaðstöðu í höfuðstöðvum skilanefndar og slitastjórnar Glitnis í Sóltúni. Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er greint frá því að stór þáttur í rannsókn Kroll á Glitni banka snúi að tölvupósti starfsmanna og að sérstaka athygli hafi vakið tölvupóstsamskipti Lárusar Welding, sem var forstjóri Glitnis, við stærstu hluthafa bankans. Tölvupóstarnir sýni að ákvarðanir sem teknar voru í bankanum virðast hafa verið í efnislegu samræmi við hluti sem klomi fram í tölvupóstsamskiptum Lárusar við stóra hluthafa bankans, þótt þær skýringar hafi verið gefnar að ákvarðanir hafi verið teknar á faglegum forsendum. Þetta er í samræmi við heimildir fréttastofu Stöðvar 2.

Fréttastofa Stöðvar 2 hefur undanfarið spurt Steinunni Guðbjartsdóttur, formann slitastjórnar Glitnis banka, um þessi tölvupóstsamskipti. Steinunn hefur hins vegar ítrekað neitað að tjá sig við fréttastofuna um þau þegar eftir því hefur verið leitað.

Kroll hyggst birta niðurstöður sínar opinberlega í einhverjum mæli þegar þær liggja fyrir, að sögn Árna Tómassonar, formanns skilanefndar Glitnis. Árni vildi ekki tjá sig um tilvist tölvupóstanna í samtali við fréttastofu og sagði þær upplýsingar ekki frá sér komnar.

Hugtakið skuggastjórnun hefur verið notað til að lýsa háttsemi þegar stór hluthafi, eða fulltrúi hans, segir stjórnanda í hlutafélagi hvaða ákvarðanir eigi að taka. Forstjóri hlutafélagsins er samt sá sem ber ábyrgð þar sem hann sækir umboð sitt til stjórnar hlutafélagsins sem er æðsta ákvörðunarvald þess milli aðalfunda. Hugtakið er að erlendri fyrirmynd, en kemur ekki fyrir í íslenskum lögum og jafnframt er þar ekki að finna ákvæði um hugsanlega refsiábyrgð skuggastjórnanda.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×