Viðskipti innlent

Tæplega helmingur húsnæðislána í greiðslujöfnun

Tæplega helmingur allra húsnæðislána hefur nú verið greiðslujafnaður samkvæmt upplýsingum sem Félags- og Tryggingamálaráðuneytið kynnti í gær. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hefur um 45% verðtryggðra húsnæðislána verið greiðslujafnað og um 42% gengistryggðra húsnæðislána hafa fengið sömu meðferð.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að með greiðslujöfnun er átt við að greiðslubyrði þessara lána hefur verið lækkuð þannig að hún er nú svipuð og var fyrir hrun. Þá hefur 15% bílalána verið greiðslujafnað.

Fljótlega eftir bankahrunið var greiðslujöfnun kynnt til sögunnar sem hluti af aðgerðum stjórnvalda og fjármálafyrirtækja enda varð greiðslubyrði þessara lána mörgum ofviða í kjölfar gengishruns og verðbólguskots.

Mun færri hafa nýtt sér höfuðstólslækkanir á húsnæðislánum sem einnig er boðið upp á en 4% þeirra sem eru með verðtryggð húsnæðislán hjá bönkunum hafa lækkað höfuðstól lána sinna og 14% þeirra sem voru með erlend húsnæðislán.

„Ljóst er að endurskipulagning skulda heimilanna í kjölfar bankahrunsins er eitt mikilvægasta atriðið í endurlífgun hagkerfisins og má ráða af þessum tölum að þó að það ferli sé hafið er enn mikið verkefni fyrir höndum," segir í Morgunkorninu.

„Í upplýsingunum sem kynntar voru í gær kom einnig í ljós að 398 einstaklingar hafa fengið greiðsluaðlögun en það úrræði er ætlað einstaklingum sem ekki geta staðið í skilum um fyrirsjáanlega framtíð. Þessar upplýsingar komu fram í gær þegar stjórnvöld kynntu til sögunnar lokahnykkinn í aðgerðum sínum vegna skuldavanda heimilanna."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×