Innlent

Tvö álfyrirtæki talin raunhæfur kostur - ríkisstjórn vill leita betur

Frá Þeistareykjum.
Frá Þeistareykjum.
Verkefnisstjórn um nýtingu orkunnar í Þingeyjarsýslum hefur komist að þeirri niðurstöðu að tvö verkefni séu áhugaverð og raunhæf; álver á vegum Alcoa og álver á vegum kínverska fyrirtækisins Bosai. Ríkisstjórnin vill hins vegar leita betur að einhverju öðru.

Opinn fundur um orkunýtingu og atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum með iðnaðarráðherra og forstjóra Landsvirkjunar hófst á Hótel Húsavík nú síðdegis þar sem niðurstöður verkfnisstjórnar voru kynntar. Eftir að ríkisstjórn hafnaði því síðastliðið haust að endurnýja viljayfirlýsingu við Alcoa um álver á Bakka var verkefnisstjórn sett á laggirnar til að skoða aðra möguleika.

Hún hefur nú flokkað kostina og sett tvö verkefni í A-flokk, sem áhugaverð og raunhæf út frá skilgreindu tæknistigi, reynslu og fjárhagslegum burðum verkefnisaðila. Þetta eru annarsvegar álver Alcoa og hins vegar álver á vegum Bosai, sem er kínverskt einkafyrirtæki.

Fjögur verkefni eru sett í B-flokk sem áhugaverð en þarfnist ítarlegri skoðunar, meðal annars á þekkingarlegum og fjárhagslegum bakgrunni. Þau fyrirtæki eru í áliðnaði, gagnaver, málmblendi og efna- og eldsneytisframleiðsla. Loks eru sex verkefni sett í C-flokk sem þurfi að þroskast betur.

Ríkisstjórnin er ekki tilbúin út frá þessari niðurstöðu að velja annaðhvort álfyrirtækið úr A-flokknum heldur vill leita betur. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir að næstu skref verði að ráðast í frekari kynningu á svæðinu enda hafi fjöldi fyrirtækja sýnt áhuga á því til atvinnuuppbyggingar. Hún vonist svo til að í haust verði málið það langt komið að hægt verði að ganga til samninga við eitt eða fleiri fyrirtæki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×