Innlent

Barði skónum í púltið að hætti Krushcevs

Maður sem var til sjós alla sína starfsævi þrátt fyrir að fótur hans hafi verið hálfónýtur frá barnæsku segist afar vonsvikinn með að lífeyrissjóðurinn Gildi hafi sólundað lífeyri hans.

Hróp voru gerð að stjórnarmönnum Lífeyrissjóðsins Gildis á tilfinningaríkum ársfundi sjóðsins í gærkvöldi og einn fundarmanna vakti athygli þegar hann barði skó sínum í ræðupúltið.

Einn almennra sjóðsfélaga og sá hinn sami og barði skó sínum í púltið er Árni Konráðsson. Hann segist hafa notað skó sinn að hætti Krushcevs, fyrrverandi forseta Sovétríkjanna, til að vekja athygli á orðum sínum og líka til að minna á stöðu öryrkja gagnvart sjóðunum, en sem barn hlaut hann örkuml á fótlegg þar sem hann fékk ekki nóg að borða. Árni hefur verið haltur síðan og gengur í sérútbúnum skóm. Fötlunina lét hann þó ekki aftra sér frá því að stunda sjómennsku til að sjá börnunum sínum sjö farborða.

Lífeyrissjóðurinn Gildi var stofnaður 2005, við samruna Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóð sjómanna.

Tillaga um að stjórn og framkvæmdastjóri sjóðsins segðu af sér vegna óábyrgra útlána, sem skerða nú lífeyrisgreiðslur, var felld í gær, en almennir sjóðsfélagar höfðu ekki atkvæðisrétt á fundinum.

Árni segist afar vonsvikinn og segist furða sig á þeirri lítilsvirðingu sem almennum sjóðfélögum sé sýnd.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×