Erlent

Ekki drekka bjór í beinni útsendingu -myndband

Óli Tynes skrifar
Úps.
Úps.

Vinsæll fréttalesari hefur verið rekinn frá finnska ríkissjónvarpinu fyrir að súpa á bjór í miðri útsendingu. Hann segir að það hafi verið brandari sem mistókst.

Kimmo Wilska las fréttir á ensku hjá finnska sjónvarpinu. Hann var að segja frétt af refsingum sem ýmsir veitingastaðir höfðu verið beittir fyrir að fara ekki að reglum. Hann las hluta af fréttinni í beinni útsendingu en hluti var tekinn upp fyrirfram og þá myndir af veitingastöðum lagðar yfir textann.

Wilska segir að í þeim kafla fréttarinnar hafi hann verið að grínast við félaga sína í myndverinu og þóst súpa á bjórflösku. Einmitt á því augnabliki kom hann aftur á skjáinn. Honum var sýnilega brugðið, en hélt þó lestrinum áfram.

Finnska sjónvarpinu var ekki skemmt og rak hann. Sett hefur verið upp Facebook-síða þar sem þess er krafist að uppsögnin verði dregin til baka. Yfir 20 þúsund manns hafa þegar skráð sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×