Innlent

Þriðja endurskoðun líklega afgreidd hjá AGS fyrir sumarlok

Þorbjörn Þórðarson. skrifar

Ekkert bendir til annars en að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni endurskoða efnahagsáætlun fyrir Ísland í þriðja sinn áður en sumarið er úti, en sendinefnd á vegum sjóðsins er nú hér á landi og á í viðræðum við íslensk stjórnvöld. Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verður hér á landi til 28. júní næstkomandi en nefndin er nú að skoða hvort íslenska ríkið hafi staðið við skuldbindingar sínar gagnvart sjóðnum og því sem lofað var með síðustu viljayfirlýsingu. Meðal annars er verið að kanna hvort ýmsar aðgerðir er snúa að fjárlagahallanum séu á áætlun, eða með öðrum orðum, hvort ríkið sé ekki örugglega að spara peninga og skera niður kostnað.

Fram kom í síðustu skýrslu starfsliðs sjóðsins að hann reikni með því að hagvöxtur milli fjársfjórðunga hefjist á Íslandi á þessu ári. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur ekkert komið fram í þessum viðræðum um að Íslendingar hafi ekki staðið við sinn hluta samkomulagsins og því séu talsverðar líkur á því að lán númer þrjú verði afgreitt, en það verður þó ekki fyrr en síðsumars eða snemma í haust.

Þegar endurskoðuð efnahagsáætlun fyrir Íslands var samþykkt af stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í apríl síðastliðnum og lán númer tvö var afgreitt kom fram í viljayfirlýsingu íslenska ríkisins og sjóðsins að Ísland hefði nú þegar skuldbundið sig til þess að endurgreiðsla breska og hollenska ríkinu Icesave-fjárhæðina með sanngjörnum skilmálum, að því gefnu að samkomulag milli ríkjanna myndi nást.

Samkvæmt heimildum fréttastofu leggur AGS áherslu á að ljúka málinu, en það að málið sé óleyst stendur þó ekki endurskoðaðri efnahagsáætlun fyrir þrifum. Það mun þó skýrast síðar í sumar hvort sjóðurinn muni gera lausn málsins að skilyrði fyrir frekari lánveitingum til íslenska ríkisins.

Engar formlegar viðræður eru komnar á dagskrá í Icesave-málinu en óformleg samskipti hafa átt sér stað við bresk og hollensk stjórnvöld í hverri viku að undanförnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×