Innlent

Dópaður á ofsahraða með barnið í aftursætinu

Maður, sem er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum eiturlyfja, reyndi að stinga lögregluna á Selfossi um kvöldmatarleytið á laugardaginn.

Lögreglan veitti honum athygli þar sem hann ók inn í hringtorg á Suðurlandsveg í Hveragerði en ökumaðurinn jók hraðann skyndilega þegar hann varð var við lögregluna. Tók hann þá stefnuna inn í Hveragerði eftir Breiðumörk.

Lögreglumenn veittu manninum eftirför með blikkljósum og sírenuvæli. Ökumaðurinn sinnti því ekki heldur reyndi hann að aka að heimili sínu og hlaupa inn í húsið.

Þegar lögreglan hafði hendur í hári mannsins kom í ljós að ungt barn var með honum í bílnum. Að sögn lögreglunnar var akstur mannsins háskalegur og margt fólk var á gangi á gangstéttum meðfram leið ökumannsins.

Lögreglan handtók manninn og var tekið blóðsýni úr honum. Talið er að hann hafi verið undir áhrifum eiturlyfja.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×