Erlent

Forsetinn lofar breytingum

Nú þarf hann að standa við stóru orðin.
nordicphotos/AFP
Nú þarf hann að standa við stóru orðin. nordicphotos/AFP
Sebastian Pinera, forseti Síle, segir að aldrei framar muni stjórn landsins heimila það að fólk vinni við jafn ómannúðlegar aðstæður og námumennirnir 33 sem bjarga þurfti út úr lokuðum námugöngum eftir tveggja mánaða innilokun.

Pinera fylgdist grannt með björgunaraðgerðunum og hefur óspart látið ljósmynda sig með námumönnunum, sem flestir eru við góða heilsu eftir þessa þrekraun.

Forsetinn segir þennan góða árangur björgunarmanna verða til þess að álit umheimsins á Síle vaxi. Jafnframt segir hann að Sílebúar verði að læra af þessari erfiðu reynslu og heitir því að grundvallarbreytingar verði gerðar á því hvernig fyrirtæki í landinu komi fram við starfsfólk sitt.

Námumennirnir voru fluttir á sjúkrahús eftir björgunina, sem gekk eins og í sögu. Þeir verða flestir útskrifaðir strax í dag og geta varla beðið eftir því að komast heim.

Fjölskyldur þeirra og vinir hafa skipulagt fagnaðarsamkomur og þjóðin öll hefur óspart tekið þátt í gleðinni.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×