Erlent

Rannsókn: Hávaði dregur úr bragðskyni fólks

Ný rannsókn hefur svipt hulunni af því afhverju matur um borð í flugvélum þykir oft bragð- og líflaus. Margir þekktir kokkar hafa glímt árum saman við þetta vandamál.

Rannsóknin sem hér um ræðir var unnin í samvinnu rannsóknarstofu matvælarisans Unilever og Háskólans í Manchester.

Í ljós kom að bakgrunnshávaði hefur mikið að segja um hvernig matur bragðast. Í rannsókninni var fólk látið borða ýmsan mat með bundið fyrir augum í mismundandi miklum hávaða. Í ljós kom að eftir því sem hávaðinn jókst fannst fólki að maturinn væri minna sætur og saltur.

Samkvæmt umfjöllun um málið á BBC er þetta talið geta útskýrt afhverju matur í flugvélum þykir bragðlaus en mismunandi háværar bakgrunnsdrunur heyrast oftast í flugvélum á flugi. Hávaðinn dragi athyglina frá matnum.

Það kom ennfremur í ljós í rannsókninni að ef fólk hlustaði á hávaða sem því líkaði, eins og til dæmis uppáhalds tónlist sína jókst bragðskyn þess. Þetta atriði ætla vísindamennirnir að rannsaka nánar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×