Handbolti

Aron og félagar unnu Árna og Sigurberg

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Árni Þór skoraði þrjú í kvöld.
Árni Þór skoraði þrjú í kvöld. Fréttablaðið/Stefán
Fimm Íslendingar léku í tveimur leikjum þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í kvöld. Þeir skoruðu samtals átta mörk í tveimur Íslendingaslögum.

Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk fyrir Kiel sem vann Rheinland 25-32. Árni Þór Sigtryggsson skoraði þrjú mörk fyrir Rheinland og Sigurbergur Sveinsson tvö.

Rheinland stríddi stórliði Kiel vel í leiknum en staðan í hálfleik var 15-15.

Kiel jók forystuna jafnt og þétt í seinni hálfleik og vann að lokum nokkuð þægilegan sjö marka sigur.

Sverre Jakobsson skoraði ekki fyrir Grosswallstadt, ekki frekar en Kári Kristján Kristjánsson fyrir Wetzlar en Sverre fór með sigur af hólmi, 23-22 í leik liðanna í kvöld. Sverre fékk eina tveggja mínútna brottvísun.

Grosswallstadt var fimm mörkum yfir, 22-17, þegar átta mínútur voru eftir en Wetzlar minnkaði muninn í eitt mark. Það náði þó ekki að jafna og naumur sigur Sverre og félaga staðreynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×