Viðskipti innlent

Víðtæk endurskoðun á virðisaukaskatti vegna svikamáls

Fjármálaráðuneytið hefur hrundið af stað víðtækri endurskoðun á stjórnun, verklagi, ferli og meðferð gagna, sem tengjast innheimtu á virðisaukaskatti.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að þetta sé gert vegna gruns um stórfellt misferli og fjársvik, sem upp komst um, fyrir nokkrum dögum.

Einnig verður metið hvort ástæða sé til að breyta lögum eða reglugerðum um virðisaukaskatt og hvort ástæða sé til að fjölga mannskap hjá Ríkisskattstjóra.

Í tilkynningunni segir að áhættumat og áhættustjórnun verður hert, endurbætur verða gerðar á innri og ytri ferlum, svo sem aðkomu starfsfólks, afgreiðsluhraða og krafna til stofnenda og stjórnenda fyrirtækja.

Lagt verður sérstakt mat á verklag m.a. með hliðsjón af fjárhæðum til endurgreiðslu. Endurskoðaðir verða starfshættir við samanburð gagna, skráningu upplýsinga og innra eftirlit og loks er lagt mat á hvort ástæða sé til að breyta lögum eða reglugerðum, og þá í hverju slíkar breytingar ættu að felast.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×