Viðskipti innlent

Seðlabankinn og Kaupþing deila um söluna á FIH

Samkvæmt frétt á vefsíðunni business.dk er komin upp deila milli Seðlabanka Íslands og skilanefndar Kaupþings um hvoru af tveimur kauptilboðum í FIH bankinn eigi að taka. Töluverður munur er á tilboðunum.

Tveir af stærstu lífeyrissjóðum Danmerkur, ATP og PFA, vilja greiða ákveðið verð fyrir bankann strax en hinn hópurinn sem boðið hefur í bankann, fimm minni danskir lífeyrissjóðir og breski fjárfestingarsjóðurinn Triton, vilja greiða út minni upphæð og síðan greiða meira í framtíðinni ef rekstur bankans gengur vel.

Samkvæmt fréttinni á business.dk vill Seðlabankinn taka tilboði ATP og PFA en skilanefndin vill taka hinu tilboðinu enda telur skilanefndin að framtíð FIH sé björt og að meira fé fáist í bú Kaupþings ef því tilboði verður tekið.

Samkvæmt fréttinni mun tilboð ATP og PFA tryggja það að Seðlabankinn fái strax í hendurnar þær 500 milljónir evra, eða rúmlega 75 milljarða kr. sem bankinn lánaði Kaupþingi korteri fyrir hrunið 2008 með veði í FIH bankanum. Ef hinu tilboðinu er tekið virðist ekki ljóst hve langan tíma það tæki fyrir Seðlabankann að ná fé sínu til baka.

Business.dk segir að verulegur ágreiningur sé kominn upp milli Seðlabankans og skilanefndarinnar í málinu. Hinsvegar bendi allt til þess að ATP og PFA fái að kaupa FIH bankann. Hugsanlega muni það liggja ljóst fyrir seinna í dag.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×