Innlent

Europol aðstoðar við rannsókn kókaínmálsins

Gæsluvarðhald var framlengt yfir fjórum mönnum á föstudag.
Gæsluvarðhald var framlengt yfir fjórum mönnum á föstudag.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann átta milljónir króna í tveimur aðskildum bankahólfum í tengslum við rannsókn sína á kókaínmáli, þar sem reynt var að smygla þremur kílóum af mjög hreinu kókaíni í ferðatöskum til landsins frá Spáni í síðasta mánuði.

Í öðru hólfinu voru að auki skartgripir sem gullsmiðir hafa verðmetið á rúmar tvær milljónir. Um var að ræða hringa og annað skart. Munirnir voru fáir en fokdýrir. Ekki er talið að um þýfi sé að ræða.

Sex manns sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti á föstudag áframhaldandi gæsluvarðhald yfir fjórum. Þeir skulu sitja inni til 18. júní. Sá fimmti situr í gæsluvarðhaldi til 11. júní að minnsta kosti. Sá sjötti er í gæsluvarðhaldi á Suðurnesjum, úrskurðaður til 4. júní.

Rannsókn málsins er nokkuð umfangsmikil en hún snýst í raun um tvær tilraunir til innflutnings á kókaíni. Í öðru tilvikinu var afhendingu fíkniefnanna fylgt eftir, það er frá því að svokallað meint burðardýr kom því í hendur viðtakenda.

Rannsóknin miðar jafnframt að því að tengja málin við önnur sem upp hafa komið, bæði hérlendis og erlendis, þar sem Íslendingar hafa komið við sögu. Vegna þessa hefur Europol haft aðkomu að málinu.

Það var helgina 10. til 11. apríl sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók fyrstu fimm mennina vegna málsins. Maður og kona voru svo handtekin vegna málsins á Keflavíkurflugvelli á sama tímabili. Einn karlmaður til viðbótar var svo handtekinn nokkru síðar og úrskurðaður í gæsluvarðhald.

-jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×