Erlent

Time tilnefnir Assange mann ársins

Höfuðpaur Wiki­leaks-síðunnar. Fréttablaðið/Vilhelm
Höfuðpaur Wiki­leaks-síðunnar. Fréttablaðið/Vilhelm
Þótt Julian Assange, stofnandi lekasíðunnar Wikileaks, reyni að halda sér fjarri sviðsljósinu meðan fjölmiðlar fjalla um efni lekanna hefur persóna hans engu að síður verið til umfjöllunar nú, rétt eins og fyrr þegar mikilvægar upplýsingar sem áttu að fara leynt hafa verið gerðar opinberar.

Þannig skýrir tímaritið Time frá því að hann komi sterklega til greina sem maður ársins 2010, en tímaritið hefur frá því á fyrri hluta síðustu aldar valið einstakling sem þykir hafa haft meiri áhrif til góðs eða ills eða í það minnsta verið meira áberandi en aðrir það árið.

Þá er bandaríska dómsmálaráðuneytið að kanna hvort hægt verði að lögsækja hann, og þykja þá helst koma til greina bandarísku njósnalögin frá 1917, sem sumir sérfræðingar segja reyndar að séu orðin úrelt.

Í Ástralíu, heimalandi Assanges, hefur lögreglan einnig hafið rannsókn á því hvort hægt verði að lögsækja hann fyrir að leka viðkvæmum upplýsingum.

Fáir virðast hins vegar vita hvar Assange er niðurkominn, en í Svíþjóð er hann eftirlýstur vegna ákæru fyrir kynferðisbrot.

Stjórnvöld í Ekvador hafa síðan boðið honum hæli, ef á þyrfti að halda, og segjast hvenær sem er taka honum fagnandi.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×