Innlent

Ekki hægt að loka bjarginu

Ein af fuglategundunum sem verpa í Látrabjargi.
Ein af fuglategundunum sem verpa í Látrabjargi.

Gísli Már Gíslason, formaður Bjargtanga – félags landeigenda og sumarbústaðaeigenda á Hvallátrum, segir félagið vera mjög hlynnt endurbótum á Látrabjargi en segir ómögulegt að loka því.

„Þetta væri eins og að loka Gullfossi,“ segir Gísli. „Þetta snýst um að fræða fólk um hætturnar en ekki banna því að skoða náttúruminjar.“ Eitt varúðarskilti er á svæðinu og setti félagið það upp til aðvörunar fyrir ferðamenn. „Við erum tilbúnir að skoða alla möguleika til þess að gera svæðið sem öruggast,“ segir Gísli.

Þingsályktunartillaga um friðlýsingu Látrabjargs var lögð fram á Alþingi árið 2003. Þetta er mesta fuglabjarg í N-Atlantshafi og þar er stærsta álkubyggð í heimi. Jafnframt vex á svæðinu sjaldgæf jurt, bjargstrý, sem hefur aðeins fundist á tveimur stöðum á landinu. Ekki hefur svæðið enn verið friðlýst.

Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri laga og stjórnsýslu hjá Umhverfisstofnun, segir að það sé vissulega ástæða til að tryggja öryggi ferðamanna á öllum stöðum á landinu sem þykja áhugaverðir.

„Það er verið að vinna í málinu og vonandi gengur það í gegn á næstu misserum,“ segir Sigrún. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×