Erlent

Dálítið 2007

Óli Tynes skrifar
Trjáhúsið hans Abani er 27 hæðir.
Trjáhúsið hans Abani er 27 hæðir.

Við fyrstu sýn mætti halda að arkitektinn að þessu húsi væri krakki sem hefði verið að teikna trjáhús. Það getur svosem vel verið að það sé líka rétt. Þetta hús er þó athyglisverðara fyrir þá staðreynd að það er byggt fyrir eina fimm manna fjölskyldu. Húsið er 27 hæðir þannig að hver fjölskyldumeðlimur gæti haft fimm hæðir fyrir sig. Og samt tvær hæðir eftir fyrir gesti.

Húsið er að sögn 37 þúsund fermetrar, sem er meira pláss en í Lúlli fjórtándi hafði í Versölum. Þar er meðal annars að finna líkamsrækt, kvikmyndasal, danssal, setustofur, gestaherbergi, og trjágarð. Á þakinu eru þrír þyrlupallar og í kjallaranum bílastæði fyrir 160 bíla. Er nú fátt eitt talið.

Helmingur af niðurfærslu lána á Íslandi

Það er ríkasti maður Indlands iðnjöfurinn Mukesh Abani sem reisti þetta veglega hús. Það stendur í borginni Mumbai. Fyrir þá sem telja þetta vera bruðl er rétt að geta þess að húsið er mjög atvinnuskapandi. Það þarf 600 manna þjónustulið til þess að reka það. Húsið er sagt hafa kostað um 112 milljarða íslenskra króna. Circa helmingur af því sem niðurfærsla lána myndi kosta hér á landi.

Manmohan Singh, forsætisráðherra Indlands hefur hvatt indverska viðskiptajöfra til að ganga á undan með góðu fordæmi í hófsemi. Mukesh Abani hefur þá líklega verið einhversstaðar annarsstaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×