Innlent

Krúttlegur kópur fæddist í Húsdýragarðinum

Landselsurtan Særún í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum kæpti í nótt sprækum kópi.

Kópurinn hóf sig strax til sunds með móður sinni og svamlar um í selalauginni gestum til mikillar gleði. Landselsurtur kæpa í látrum á landi og kóparnir líkjast fullorðnum selum mjög nema hvað auðvitað eru þeir minni. Umhyggja urtanna gagnvart kópum sínum er afskaplega sýnileg og mikið um knús þeirra á milli, segir í frétt frá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Fyrstu fjórar til sex vikurnar næra urturnar kópana sína á móðurmjólkinni sem er með þeim fitumeiri sem finnst.

Að þeim tíma loknum bítur urtan kópinn af sér og hann þarf þá að bjarga sér sjálfur. Kópurinn lifir á mjólkurforðanum í fjórar vikur en þá fyrst fer hann að taka fisk. Særún sem er ein þriggja urta sem búa í garðinum er fyrst til að kæpa en von er á fleiri kópum á næstunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×