Viðskipti innlent

Þrotabú VBS á einn milljarð upp í kröfur

Dæmi eru um að VBS hafi gefið út skuldabréf út á byggingar húsa á lóðum án þess að byggt hafi verið á lóðinni, að sögn lögmanns sem sæti á í slitastjórn fjárfestingarbankans. Fréttablaðið/E.ÓL
Dæmi eru um að VBS hafi gefið út skuldabréf út á byggingar húsa á lóðum án þess að byggt hafi verið á lóðinni, að sögn lögmanns sem sæti á í slitastjórn fjárfestingarbankans. Fréttablaðið/E.ÓL
Stjórnendur VBS Fjárfestingarbanka lánuðu háar fjárhæðir til áhættusamra fasteignaverkefna fyrir hrun sem ekki stóðu undir lánveitingum. Í einhverjum tilvikum lánaði bankinn gegn veði í lóðum sem til stóð að byggja á.

„Þess eru dæmi að gefin hafi verið út skuldabréf á byggingar húsa á lóðum án þess að byggt hafi verið á lóðinni,“ segir Hróbjartur Jónatansson, lögmaður sem sæti á í slitastjórn VBS.

„Þarna voru aðilar sem VBS tók að sér að fjármagna sem settu lóðir að veði sem ekki var byrjað að byggja hús á. Lítil verðmæti voru á bak við þau bréf og ljóst að ekki hafa verið fullnægjandi veð í ýmsum tilvikum fyrir endur­greiðslu. Það er ekki mikið til staðar ef ekki stendur hús á lóðinni,“ bætir hann við.

Hróbjartur segir erfitt að sjá forsendur sumra fasteignaverkefnanna í dag. Ljóst sé að verkefnin standi ekki undir lánveitingum VBS. „Veðin eru talin það léleg að þau skila ekki miklu til félagsins,“ segir hann.

Fyrsti kröfuhafafundur VBS var haldinn í fyrradag. Þar kom fram að lýstar kröfur nema 48 milljörðum króna. Þar af eru launakröfur upp á tæpar hundrað milljónir króna.

Aðrar kröfur eru víkjandi skuldabréf og fleira sem ekki þótti ástæða til að taka afstöðu til þar sem ekkert mun fást upp í þær. Fram kom á kröfuhafafundinum að búið væri að færa ofmetið eignasafn bankans niður úr 52 milljörðum króna í tíu milljarða, eða um rúm áttatíu prósent. Af milljörðunum tíu eru níu milljarða innstæður í Seðlabankanum og gamla Kaupþingi. Þær eru veðsettar upp í rjáfur og því aðeins einn milljarður í bókfærðu eiginfé til skiptanna fyrir kröfuhafa.

„Það er okkar mat að eignir eru ekki nægar til að mæta skuldum,“ segir Hróbjartur.

jonab@frettabladid.is




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×