Innlent

Óvissa um hvernig eigi að gera upp lánin

Skuldir fólks vegna gengistryggðra lána hverfa ekki með niðurstöðu Hæstaréttar í Bílalánsmálunum. Í raun er kominn upp óvissa um hvernig eigi að gera upp lánin, en Hæstiréttur veitir ekki leiðbeiningar um það í niðurstöðum sínum. Lögmaður skuldara segir þó að gera verði upp lánasamningana í samræmi við önnur ákvæði sem haldi gildi sínu.

Fjörutíu og fjögur þúsund íslensk heimili eru með gengistryggð bílalán, en það eru ekki aðeins heimili sem eru með slík lán því fyrirtæki, verktakar, bændur og sveitarfélög eru í sömu stöðu.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í gær að óheimilt væri að tengja greiðslur vegna lána við gengi erlendra mynta. Skoða þarf hvern og einn lánasamning en flest gengistryggð lán falla undir dóminn.

Með niðurstöðu sinni víkur Hæstiréttur víkur til hliðar ákvæði samninganna um gengistryggingu og þá stendur það eftir að önnur ákvæði svona samninga eru í gildi þangað til ákvörðun hefur verið tekin um annað af þar til bærum aðilum, þ.e dómstólum.

Ekki voru settar fram varakröfur af hálfu Lýsingar og SP-Fjármögnunar ef svo færi að gengistryggingin yrði dæmd ólögmæt. Því veita dómar Hæstaréttar í raun engin svör við því hvernig eigi að gera þessa samninga upp. Björn Þorri Viktorsson, hæstaréttarlögmaður, segir að miða verði við að lánin verði gerð upp í samræmi við önnur ákvæði lánasamninganna sem haldi gildi sínu og höfuðstóll þeirra verði miðaður við fjárhæð höfuðstóls þegar samningarnir voru gerðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×