Viðskipti innlent

Euromoney: Forstjóri FME var veifiskati

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, var veifiskati og óþarflega áhugasamur um að blanda geði við bankastjórnendur. Þetta kemur fram í grein í blaðinu Euromoney en þar er Jónas harðlega gagnrýndur fyrir að hafa verið klappstýra bankanna fremur en að sinna því eftirlitshlutverki sem honum var falið.

Í greininni segir að Ísland hafi í raun verið orðið fjárhagslegt bananalýðveldi árið 2007. Stofnunin sem hafi átt að sjá um eftirlit hafi verið staðsett í hrörlegri byggingu fyrir ofan kínverska núðlubúð. Í uppsveiflunni hafi þeir starfsmenn Fjármálaeftirlitsins sem hafi haft einhvern snefil af skynsemi flutt sig yfir til bankanna. Eftir hafi setið glórulaust fólk með yfirmann sem var óþarflega áhugasamur um að blanda geði við bankastjórnendur, Jónas Fr. Jónsson.

Vinasamband hans og Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings hafi verið of náið. Umræður þeirra á milli hafi snúist um veðrið, íþróttir og ferðalög - allt nema fjármál.

Jónas hafi verið veifiskati og besti vinur bankamannanna. Hlutverk hans hafi fremur falist í að vera klappstýra bankanna en að hafa eftirlit með þeim. Gunnar Andersen sem tók við sem forstjóri í apríl 2009 fær betri útreið en fyrrirennari hans. Í greininni er haft eftir Gunnari að saga bankahrunsins sé saga vanhæfis, sveitamennsku, sjálfsblekkingar, hörmulegrar stjórnunar og meintrar glæpastarfsemi.

Í greininni segir ennfremur að fjármálaeftirlitið hafi síðan í maí á síðasta ári sent 30 mál er varða markaðsmisnotkun til sérstaks saksóknara. Gunnar gerir ráð fyrir að fjöldi mála er varða markaðsmisnotkun eigi eftir að verða að minnsta kosti tvöfalt fleiri í árslok.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×