Innlent

Dánartíðni hækkar örlítið á Íslandi milli ára

Árið 2009 dóu 2.002 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi, 1.033 karlar og 969 konur. Dánartíðni var 6,3 látnir á hverja 1.000 íbúa. Hún hækkaði um 0,1 frá árinu 2008.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að íslenskir drengir geta nú vænst þess við fæðingu að verða 79,7 ára gamlir en stúlkur 83,3 ára. Á undanförnum áratugum hefur dregið nokkuð saman með kynjunum. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var um sex ára munur á meðalævilengd kynjanna en er nú einungis 3,6 ár. Í Evrópu var munur á væntri ævilengd stúlkna og drengja árið 2007 næst minnstur í Svíþjóð og Makedóníu (4,1 ár). Mestur var munurinn í Rússlandi (12,5 ár) og Litháen (12,4 ár).

Lífslíkur íslenskra karla hafa batnað mjög á undanförnum árum. Frá árinu 2000 hafa þeir bætt við sig rúmlega tveimur árum í meðalævilengd. Árið 2007 var meðalævilengd íslenskra karla 79,4 ár og skipuðu þeir annað sætið meðal Evrópuþjóða það ár á eftir Sviss en þar gátu nýfæddir drengir vænst þess að verða 79,5 ára. Styst var þá meðalævilengd evrópskra karla í Rússlandi (61,4 ár), Úkraínu (62,5 ár) og Hvíta-Rússlandi (64,5 ár).

Lengi vel voru lífslíkur íslenskra kvenna hæstar í heiminum en þær hafa látið undan síga á þessari öld. Árið 2007 skipuðu þær ellefta sætið meðal Evrópuþjóða. Elstar evrópskra kvenna verða konur í Frakklandi (84,8 ár), Sviss (84,4 ár) og á Spáni (84,3 ár). Ævilengd evrópskra kvenna var árið 2007 var styst í Moldóvu (72,6 ár) og Rússlandi (73,9 ár).








Fleiri fréttir

Sjá meira


×