Viðskipti innlent

Fimmta hver króna ríkissjóðs fer í vaxtagreiðslur

Í fyrra voru heildarvaxtagjöld ríkissjóðs 90 milljarðar kr eða 19,5% af tekjum ríkissjóðs og samkvæmt fjárlögum 2010 verða vaxtagjöld í ár 94,3 milljarða kr eða rúm 20% af heildartekjum. Fimmta hver króna sem greidd er í ríkissjóð fer því í vaxtagreiðslur af skuldum ríkissins.

Þetta kemur fram í Markaðsvísi greiningar MP Banka. Þar segir að sá gjaldaliður ríkissjóðs sem hefur vaxið hvað hraðast undanfarin misseri eru vaxtagjöld. Vaxtagjöld voru um 10% af tekjum árið 1998 en lækkuðu jafnt og þétt í rétt um 5% heildartekna árin 2005 og 2006. Þá tók hlutfall vaxtagjalda að aukast á ný og var það rúm 6% heildartekna ríkissjóðs árið 2007 og tæp 9% árið 2008.

Undanfarin ár hafa miklar tekjur skilað sér í ríkissjóð í janúar vegna fjármagnstekjuskatts. Svo er ekki nú þar sem innheimtu fjármagnstekjuskatts var breytt í fyrra og er hann nú innheimtur ársfjórðungslega. Því er ekki til staðar sama árstíðabundna uppsveifla í tekjum ríkissjóðs í janúar nú eins og undanfarið.

Í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að ef leiðrétt er fyrir samdrætti í innheimtum fjármagnstekjuskatti í mánuðinum er um að ræða um 5% samdrátt tekna milli ára og um 16,5% samdrátt að raunvirði. Tekjur ríkissjóðs í janúar námu 24,7 milljörðum kr en gjöld ríkissjóðs í mánuðinum voru alls 42,7 milljarðar kr sem er tæplega 10% hærra en í janúar á síðasta ári. Gjöld ríkissjóðs í janúar voru því um 73% hærri en tekjurnar.

Hallarekstur á ríkissjóði kallar á frekari lántökur og hærri vaxtagjöld. Eina leiðin út úr þessum vanda er að draga úr hallarekstrinum sem fyrst. Aðeins tvær leiðir eru til þess, þ.e. að auka tekjurnar eða draga úr útgjöldum. Auknar tekjur ríkissjóðs þýða fyrst og fremst auknar álögur á fyrirtækin og heimilin í landinu en erfitt er að sjá að enn frekari skattahækkanir séu vænlegar til þess að koma hjólum efnahagslífsins í gang á ný.

Vaxtabyrði ríkisins er slík og hallinn svo mikill að ekki er hægt að sjá annað en verulegur niðurskurður ríkisútgjalda sé handan við hornið ef nokkur vilji er til þess að taka á vandanum, að því er segir í Markaðsvísinum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×