Innlent

Bíða eftir viðbrögðum

Uppgjör gengistryggðra lána veltur á viðbrögðum fjármálafyrirtækja, segir Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar alþingis - og vill svör frá þeim fyrir fimmtudag. Samtök fjármálafyrirtækja kalla hins vegar á að ríkisstjórnin beini samræmdum tilmælum til bílalánafyrirtækja og banka um hvernig eigi að bregðast við gengislánadómum Hæstaréttar.

Þótt dómarnir hafi kveðið skýrt á um að gengistrygging krónulána væri ólögmæt er ýmsu ósvarað. Á öllum vígstöðvum virðist óvissa ríkja um hvernig eigi að gera upp og reikna vexti á lánin.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, stýrði í morgun fundi tveggja þingnefnda um gengisdómana, og mættu þangað fulltrúar Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Þeir vildu ekkert tjá sig um efni fundarins að honum loknum og þingmenn höfðu lítið að segja. „Þetta er flókið mál og erfitt að vinna úr því," segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.

Helgi segir framhald málsins fyrst og fremst ráðast á viðbrögðum fjármálafyrirtækjanna. Á fimmtudaginn ætli Alþingi að ljúka þeim málum sem snúa að skuldastöðu heimilanna og því telur Helgi mikilvægt að fjármálafyrirtækin verði komin með skýr svör um viðbrögð fyrir þann tíma.

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, segir fyrirtækin ekki hafa tekið ákvörðun um næstu skref. „Okkur sýnist vera skynsamlegt fyrir stjórnvöld að stíga inn í það óvissuástand sem hefur skapast."

Guðjón segir að mörgum spurningum verði ekki svarað nema fyrir dómstólum og kallar á samræmda lausn frá stjórnvöldum. Vissulega geti hvert og eitt fyrirtæki reiknað út hvernig ganga eigi frá þessum málum með sínum lögfræðingum og sérfæðingum. Hann segir þó skynsamlegra að stjórnvöld leggi línuna. Guðjón segist ekki vera að kalla eftir lagasetningu, fremur eftir tilmælum, eins og stjórnvöld sendu frá sér eftir bankahrunið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×