Lífið

Umskiptatími í íslensku menningarlífi

Menning Listahátíð í Reykjavík – The Reykjavík Festival – Festspillene i Reykjavik, eins og hátíðin nefndist stóð yfir frá 20. júní til 1. júlí 1970. Kápa fyrstu dagskrár hátíðarinnar 1970 skartaði veggteppi eftir Ágerði Ester Búadóttur.
Menning Listahátíð í Reykjavík – The Reykjavík Festival – Festspillene i Reykjavik, eins og hátíðin nefndist stóð yfir frá 20. júní til 1. júlí 1970. Kápa fyrstu dagskrár hátíðarinnar 1970 skartaði veggteppi eftir Ágerði Ester Búadóttur.

Nú er stutt í að Listahátíð í Reykjavík hefjist, hinn 12. maí, og er hún fertug: á fjörutíu ára afmæli Listahátíðar er vert að rifja upp aðdraganda og tilurð fyrstu listahátíðarinnar sem haldin var í Reykjavík í júní 1970 og hefur af því tilefni verið tekin saman lítil sýning um fyrstu hátíðina.

Listahátíðir höfðu menn haldið hér í borginni á árunum eftir stríð og stóðu þá ýmsar stofnanir að þeim ásamt bandalagsfélögum íslenskra listamanna. Síðast hafði verið blásið til slíkra hátíða með minna móti á sjöunda áratugnum en drögin að samfelldri sögu og stofnun Listahátíðar í Reykjavík má rekja til þess að Norræna húsið var opnað í Reykjavík í ágúst 1968.

Þar var valinn til forstöðu Ivar Eskeland, þekktur víða um Norðurlönd fyrir drift og lifandi áhuga á menningarstarfi. Hann fékk fljótlega þá hugmynd að hér í Reykjavík ætti að koma á laggirnar norrænni listahátíð þar sem allt hið besta í norrænum listum yrði á dagskrá. Þessa hugmynd sína viðraði hann við Pál Líndal, þáverandi borgarlögmann, sem tók vel í hugmyndina og kynnti hana fyrir borgarstjóra, Geir Hallgrímssyni.

Á sama tíma er hinn heimsfrægi píanósnillingur Vladimir Ashkenazy að flytjast til Íslands ásamt íslenskri konu sinni, Þórunni Jóhannsdóttur, og börnum.

Hugmyndin um Listahátíð er kynnt fyrir Ashkenazy sem varð strax hrifinn og staða hans í vestrænum tónlistarheimi gerði honum kleift að kalla eftir greiðum. Fyrir hans sambönd hafði hátíðin fyrstu árin greiðan aðgang að nokkrum virtustu tónlistarmönnum í heimi sem flugu hingað upp og léku með Sinfóníunni. Ashkenazy fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 1972 og bjó hér í einn áratug, á árunum 1968-1978 þar sem þau hjónin höfðu fengið nóg af erlinum sem fylgdi því að búa í London. Héðan fluttu þau síðan til Luzern í Sviss og sameinuðu með því friðsældina frá Íslandi og það að búa í hjarta Evrópu.

Dagskráin var býsna fjölbreytt fyrsta árið: Ef talin eru nokkur atriði má nefna helst: Þjóðleikhúsið flutti Mörð Valgarðsson eftir Jóhann Sigurjónsson í fyrsta sinn í leikstjórn Benedikts Árnasonar, fræg sýning á Bubba kóngi frá Marionett Teatern í Stokkhólmi var þar líka á fjölunum. Í Iðnó var frumflutt Kristnihald undir jökli í leikgerð og stjórn Sveins Einarssonar. Þar var líka flutt dagskrá úr Þorpinu eftir Jón úr Vör við tónlist Þorkels Sigurbjörnssonar. Í Norræna húsinu voru ýmsir tónleikar og vísnasöngur svo sem djass, kammertónleikar og klassík, en í Háskólabíói voru tónleikar með Daniel Barenboim og Jacquline Du Pré, og með Victoriu de los Angeles, Itzhak Perlman og André Previn undir stjórn Vladimir Ashkenazy.

Í Laugardalshöll voru sögufrægir rokktónleikar með hljómsveitinni Led Zeppelin. Í Iðnskólanum á Skólavörðuholti var sýning á grafíkverkum eftir norska listamanninn Edvard Munch og í Ásmundarsal sýning á breskri grafík frá árunum 1961-1966, en í Myndlistarhúsinu á Miklatúni, eins og það hét þá, sýning á íslenskri nútímalist. Framkvæmdastjórar á hátíðinni voru tveir ungir menn, Davíð Oddsson og Hrafn Gunnlaugsson.

Á sýningu í Norræna húsinu sem opnuð verður á laugardag má sjá minjar frá þessum umskiptatíma í íslensku menningarlífi: dagskrár, úrklippur úr blöðum, ljósmyndir og annað efni tengt þessari fyrstu Listahátíð í Reykjavík.

pbb@frettabladid.is

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.